Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson stóðu í stórræðum strax eftir rúmar átta mínútur í undanúrslitaleik Füchse Berlin og Nantes í Meistaradeild Evrópu í Lanxess Arena í Köln í dag. Þeir sýndu Mathias Gidsel, einum besta leikmanni heims og liðsmanni Füchse Berlin rautt spjald, eðlilega við litla hrifningu margra stuðningsmanna Berlínarliðsins.
Dómurinn þótti strangur en Jónas og Anton áttu ekki annars úrkosti. Gidsel rann í bleytu á gólfinu og skriðtæklaði hægri hornamann Nantes. Ekkert er til sem heitir óvart í handbolta, ekki í þessum efnum né þegar kastað er bolta í höfuð markvarðar fyrir slysni svo annað dæmi sé tekið.
Eftir að hafa litið á skjáinn til þess að fullvissa sig þá lyftu Anton og Jónas rauða spjaldinu hiklaust.

Fer ekki í leikbann
Gidsel kom ekki meira við sögu í leiknum. Hann verður hinvegar gjaldgengur í úrslitaleiknum á morgun þegar Füchse leikur við SC Magdeburg klukkan 16 í Lanxess Arena í Köln.