Arnar Birkir Hálfdánsson var hetja Amo HK í kvöld þegar liðið vann upp fjögurra marka forskot Malmö á síðustu mínútum leiks liðanna og krækti í jafntefli, 28:28, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Arnar Birkir skoraði þrjú af fjórum síðustu mörkum liðsins, þar af tvö síðustu, á þessum ævintýralega endaspretti í leik sem fram fór í Malmö.
Alls skoraði Arnar Birkir fimm mörk í leiknum.
Malmö var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:13. Heimaliðið hélt töglum og högldum lengst af síðari hálfleiks og virtist ætla að tryggja sér þægilegan sigur. Það fór á annan veg eftir að vopnin snerust í höndum leikmanna liðsins og Arnar Birkir og félagar komust á bragðið. Malmö-liðið skoraði ekki mark síðustu átta og á hálfu mínútuna.
Amo HK situr í fimmta sæti deildarinnar með sex stig að loknum fimm leikjum. Malmö hefur einnig sex stig en hefur lokið einni viðureign meira.
Góður sigur hjá Karlskrona
Hvorki Dagur Sverrir Kristjánsson né Ólafur Andrés Guðmundsson skoruðu fyrir HF Karlskrona þegar liðið vann Guif, 35:30, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik á sunnudaginn. Leikurinn fór fram í Eskilstuna. Þorgils Jón Svölu Baldursson var ekki í leikmannahópi Karlskrona. Phil Döhler varði eitt skot af 10 þann tíma sem hann var í marki Karlskrona.
Eftir brösótt gengi á síðasta keppnistímabili hefur Karlskrona-liðið farið vel af stað í deildinni til þessa og er í þriðja sæti með sjö stig þegar fimm viðureignir eru að baki.