„Það voru tvö eða þrjú lið sem ég vildi helst sleppa við og það gekk eftir,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag eftir að ljóst varð að íslenska landsliðið mætir Ísrael í tveimur viðureignum í apríl þar sem keppt verður um sæti á HM sem fram fer í Hollandi og Þýskalandi í desember á næsta ári.
„Við eigum að geta klárað leikina og komist inn á HM,“ sagði Arnar ennfremur en vildi lítið fara út í bollaleggingar um leikina og andstæðinginn en nærri fjórir mánuðir líða þangað til þeir fara fram, 9. eða 10. apríl og 12. eða 13. apríl. Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ staðfesti við handbolta.is í dag að síðari viðureignin fer ekki fram í Ísrael.
„Það væri best að fá báða leikina heima,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í dag. Hvort Arnari verður að ósk sinni skýrist vonandi á næstu dögum.
Ísland og Ísrael mættust í forkeppni fyrir HM kvenna 2023 á Ásvöllum í 5. og 6. nóvember 2022. Ísland vann báðar viðureignir örugglega, 34:26 og 33:24.
A-landslið kvenna – fréttasíða.