Tryggvi Garðar Jónsson og Arnar Snær Magnússon leikmenn Fram verða lengi frá vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir í viðureign Fram og Fjölnis í Olísdeild karla í handknattleik á fimmtudaginn.
Hægri hornamaðurinn Arnar Snær sleit hásin og ljóst að hann verður mánuðum saman frá keppni af þeim sökum.
Högg á öxl og viðbein
Tryggvi Garðar fékk högg á aðra öxlina og var óttast að hann hefði brotið viðbein og farið úr axlarlið. Eftir gaumgæfilega skoðun hefur hvorttveggja verið útilokað eftir því sem handbolti.is kemst næst. Svo virðist vera sem um mjög svæsna tognun í öxl sé um að ræða.
Nýkominn á fulla ferð
Það á svo sannarlega ekki af Tryggva Garðari að ganga því hann sleit hásin snemma á árinu og var að komast á fulla ferð aftur í síðustu leikjum þegar hann meiddist á fimmtudaginn.
Tveir leikir fyrir jól
Fram á tvo leiki eftir áður en við tekur hlé fram í febrúar vegna heimsmeistaramóts karla í handknattleik. Á föstudaginn mætir Fram liði Gróttu í Lambhagahöllinni og síðan viðureign annað hvort við Val eða Gróttu í 8-liða úrslitum Poweradebikarkeppninnar miðvikudaginn 18. desember, einnig á heimavellinum í Úlfarsárdal.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild karla.