Tveir nýliðar eru í landliðshópi kvenna sem Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hefur valið til undirbúnings og þátttöku í vináttulandsleik við Dani í Frederikshavn á norður Jótlandi 20. september. Matthildur Lilja Jónsdóttir, ÍR, og Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum, eru nýliðar. Einnig kemur Birna Berg Haraldsdóttir, ÍBV, inn í landsliðið eftir nokkurra ára fjarveru.
Nokkrir leikmenn sem hafa átt sæti í landsliðinu á undanförnum árum eins og Steinunn Björnsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttiir og Berglind Þorsteinsdóttir eru hættar. Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir eru í fæðingarorlofi. Sunna Jónsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir gefa ekki kost á sér lengur í landsliðið.


Landsliðið kemur saman til æfinga á mánudaginn og heldur síðan til Danmerkur síðar í vikunni vegna leiksins í Arena Nord í Frederikshavn. Um verður að ræða fyrsta landsleik Helle Tomsen sem tók við þjálfun danska landsliðisins í júní.

Æfingarnar í næstu viku og leikurinn í Danmörku laugardaginn 20. september verður fyrsti liður í undirbúningi kvennalandsliðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í lok nóvember í Þýskalandi og Hollandi. Einnig leikur íslenska landsliðið tvo leiki í undankeppni EM 2026 í október, gegn Færeyjum og Portúgal, heima og að heiman.
Landsliðshópurinn sem kemur saman í næstu viku er skipaður eftirtöldum leikmönnum.
Markverðir:
Hafdís Renötudóttir, Val, (67/4).
Sara Sif Helgadóttir, Haukum, (11/0).
Aðrir leikmenn:
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Fram, (6/5).
Andrea Jacobsen, HSK Blomberg-Lippe, (63/113).
Birna Berg Haraldsdóttir, ÍBV, (63/126).
Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda, (9/20).
Díana Dögg Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe, (62/81).
Elín Klara Þorkelsdóttir, IK Sävehof, (23/73).
Elín Rósa Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe, (28/55).
Elísa Elíasdóttir, Val, (22/18).
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Fram, (10/19).
Katrín Tinna Jensdóttir, ÍR, (24/10).
Matthildur Lilja Jónsdóttir, ÍR, (0/0).
Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum, (0/0).
Sandra Erlingsdóttir, ÍBV, (35/146).
Thea Imani Sturludóttir, Val, (89/193).
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val, (47/68).