Árni Bragi Eyjólfsson hefur framlengt samning sinn við bikarmeistara Aftureldingar til þriggja ára. Þar með eru að engu orðnar vangaveltur frá því á dögunum að Árni Bragi væri hugsanlega á leiðinni til Íslandsmeistara Vals.
Árni Bragi, sem varð bikarmeistari með Aftureldingu fyrir viku, hefur verið einn allra besti leikmaður Olísdeildarinnar um árabil. Hann endurnýjaði kynnin við Aftureldingu fyrir tveimur árum eftir tveggja ára fjarveru. Annað árið var Árni Bragi hjá danska úrvalsdeildarliðinu Kolding en það síðara hjá KA hvar hann varð markahæsti leikmaður Olísdeildar og var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar leiktíðina 2020/2021.
Um þessar mundir er Árni Bragi markahæsti leikmaður Aftureldingar með 104 mörk í 19 leikjum Olísdeildar.
„Árni Bragi hefur verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í liði Aftureldingar og mun taka þátt í að leiða liðið okkar áfram inn í gríðarlega spennandi tíma sem framundan eru.
Árni Bragi er mikill leiðtogi innan vallar sem utan og frábær fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk í Mosfellsbæ. Utan vallar hefur Árni verið virkur í uppbyggingarstarfi barna- og unglingadeildar, þar sem Árni hefur þjálfað yngri flokka félagsins. Árni Bragi er drífandi liðsmaður, og hefur svo sannarlega sýnt það að ungu íþróttafólki í Mosfellsbæ eru allir vegir færir,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Aftureldingar í morgun.