Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold er á toppi B-riðils Meistaradeildar Evrópu með fjögur stig eftir tvo leiki en liðið vann í kvöld öruggan sigur á Motor Zaporozhye, 38:29, í Álaborg. Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður, er aðstoðarþjálfari Álaborgarliðsins.
Álaborgarliðið var með yfirhöndina allan leikinn og hafði m.a. fjögurra marka forskot að loknum fyrir hálfeik, 17:13. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari Motor-liðsins þar sem Gintaras Savukynas, íþróttamaður Aftureldingar 1999, er aðalþjálfari. Motor er án stiga að loknum tveimur leikjum.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvisvar sinnum fyrir pólska liðið Vive Kielce þegar það vann Pick Szeged frá Ungverjalandi, 26:23, á heimavelli í A-riðli keppninnar. Haukur Þrastarson skoraði ekki mark að þessu sinni fyrir Kielce sem hefur tvö stig eftir tvo leiki.
Stefán Rafn Sigurmannsson lék ekki með Szeged vegna meiðsla. Szeged er án stiga en leikurinn í kvöld var sá fyrsti sem liðið leikur í keppninni í haust. Leik liðsins, sem fram átti að fara í síðustu viku, var frestað eftir að upp kom kórónuveirusmit innan herbúða þess.
Flensburg er efst í A-riðli með fjögur stig. Flensburg vann í kvöld PSG, 29:28, í París. PSG var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14, en stjörnum prýddu liði Frakkanna féll allur ketill í eld í síðari hálfleik.
Porto lagði Meskhov Brest frá Hvíta-Rússlandi, 27:25, í Porto en liðin eru í A-riðli og hafa tvö stig hvort eftir tvær viðureignir. Leikið var í Portúgal.