Arnór Atlason hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarliðið TTH Holstebro til ársins 2028. Félagið tilkynnti þetta í kvöld áður en lið þess vann Skjern, 29:26, í grannaslag í þriðju umferð dönsku úrvalsdeildarinnar.
Arnór tók við þjálfun TTH Holstebro sumarið 2023 og hefur síðan stokkað upp spilin hjá liðinu sem hafði verið í mesta basli á árunum á undan og var m.a. nærri fallið úr úrvalsdeildinni. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa á síðustu tveimur árum því í vor komst TTH Holstebro í undanúrslit um danska meistaratitilinn.
Arnór var í vor kjörinn þjálfari ársins í Danmörku í kjöri sem danska handknattleikssambandið stóð fyrir.
Frumraun sem aðalþjálfari
Starfið hjá TTH Holstebro er það fyrsta hjá Arnóri sem aðalþjálfari félagsliðs. Hann hafði verið aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold í fimm ár áður en hann færði sig um set á Jótlandi. Einnig var Arnór þjálfari 19 til 21 árs karlalandsliða Danmerkur um árabil eftir að ferlinum sem handknattleiksmaður lauk 2018 og þangað til hann tók við þjálfun TTH Holstebro.
Arnór hefur einnig verið aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins síðan Snorri Steinn Guðjónsson tók við sem landsliðsþjálfari um mitt árið 2023.
Jóhannes Berg skoraði tvö
Jóhannes Berg Andrason skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu í sigurleik TTH Holstebro á Skjern í kvöld, 29:26. Jóhannes Berg gekk til liðs við TTH Holstebro í sumar frá FH.
TTH Holstebro hefur unnið tvo af þremur leikjum sínum í dönsku deildinni til þessa á leiktíðinni.