Arnór Snær Óskarsson hefur samið við norska meistaraliðið Kolstad Håndball í Þrándheimi og gengur nú þegar til liðs við félagið. Til stendur að hann leiki sinn fyrsta leiki fyrir Kolstad í Meistaradeildinni á heimavelli á miðvikudaginn gegn Pick Szeged. Samningur Arnórs Snæs við Kolstad er til loka leiktíðarinnar sumarið 2026.
Arnór Snær hittir fyrir bróður sinn, Benedikt Gunnar, og tvo aðra Íslendinga hjá Kolstad, Sigvalda Björn Guðjónsson fyrirliða og Svein Jóhannsson.
Hálf annað ár er síðan Arnór Snær samdi við Rhein-Neckar Löwen sem lætur hann hér með lausan undan samningi. Tækifæri hans hjá þýska liðinu hafa verið af skornum skammti á þessari leiktíð. Á síðari hluta síðasta tímabils var Arnór Snær á láni hjá Gummersbach.
Kolstad hefur orðið norskur meistari og bikarmeistari tvö síðustu keppnistímabil og hefur innan sinna raða nokkra af bestu leikmönnum Noregs auk þess sem Christian Berge fyrrverandi landsliðsþjálfari er aðalþjálfari liðsins.
Sem stendur er Kolstad í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 11 leiki, er stigi á eftir Elverum.