- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnór Snær í níunda sæti – þrír Íslendingar meðal 30 efstu

Arnór Snær Óskarsson í leik með Val á síðustu leiktíð. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Valsarinn Arnór Snær Óskarsson er í níunda sæti á lista yfir markahæstu leikmenn Evrópudeildarinnar í handknattleik karla þegar fjórar umferð af 10 eru að baki. Arnór Snær hefur skorað 26 mörk, eða 6,5 mörk að jafnaði í leik. Skotnýting hans er 65%. Þrír Íslendingar eru á meðal 30 markahæstu.


Annar Valsmaður er á meðal 30 markahæstu leikmanna, Stiven Tobar Valencia. Hann hefur skorað 21 mark í 26 skotum og er með 80,8% skotnýtingu.

Af 30 markahæstu mönnum hafa aðeins tveir nýtt skot sín betur en Stiven. Báðir eru hægri hornamenn. Annar þeirra er Óðinn Þór Ríkharðsson leikmaður svissneska meistaraliðsins Kadetten Schaffhausen með 84,6% skotýtingu. Hinn er Færeyingurinn Hakon West af Teigum, liðsmaður Skanderborg Aarhus, með 85,2%, 23 mörk í 27 skotum.


Óðinn Þór er næstur fyrir ofan Stiven í fjölda marka, 22 í 26 skotum. Óðinn Þór hefur leikið þrjá leiki en aðrir fjóra. Hann missti af fyrsta leik Kadetten í Evrópudeildinni í lok október vegna meiðsla.


Svartfellingurinn Milos Vujovic leikmaður Füchse Berlin er markahæstur í Evrópudeildini með 33 mörk. Sommer Arnoldsen hjá Skanderborg Aarhus og Valera Rovira leikmaður Granolles eru næstir á eftir með 30 mörk hvor.


Fimmta umferð Evrópudeildarinnar fer fram á þriðjudaginn og verður keppnin hálfnuð að henni lokinni. Valur sækir Ferencváros heim til Búdapest á þriðjudag og mætir sænska meistaraliðinu Ystads IF HF í Origohöllinni þriðjudaginn 13. desember í síðustu umferð ársins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -