Arnór Þór Gunnarsson verður fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í kvöld þegar leikið verður við landslið Portúgals í Porto í undankeppni EM í handknattleik karla. Arnór Þór tekur við fyrirliðabandinu af Aroni Pálmarssyni sem er fjarri góðu gamni vegna meiðsla í hné.
Með þeirri ákvörðun Guðmundar Þórðar Guðmundssonar landsliðsþjálfara að skipa Arnór Þór fyrirliða landsliðsins í leiknum í kvöld má telja fullvíst að Arnór Þór verði fyrirliði landsliðsins á HM sem framundan er í Egyptalandi og hefst eftir rétta viku.
Þar með eru bræður fyrirliðar landsliða Íslands í handknattleik og knattspyrnu en Aron Einar Gunnarsson, bróður Arnórs Þórs, hefur verið fyrirliði knattspyrnulandsliðsins um nokkurra ára skeið. Sennilega er um einsdæmi að ræða í heiminum að bræður séu fyrirliða tveggja helstu A-landsliða þjóðar sinnar á sama tíma.
Arnór Þór lék sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd 11. janúar 2008 í Þrándheimi gegn Ungverjum. Hann hefur leikið 114 landsleiki og skorað í þeim 332 mörk. HM í Egyptalandi verður hans áttunda stórmót fyrir Ísland.
Viðureign Portúgals og Íslands í Porto í kvöld hefst klukkan 19.30 og verður sýndur hjá RÚV. Lið þjóðanna leiða á ný saman hesta sína í Schenker-höllinni á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 16. Báðir leikir eru liður í undankeppni EM2022. Þriðji leikur þjóðanna í handknattleik karla fer síðan fram í Kaíró á fimmtudaginn eftir rúma viku og veðrur í 1. umferð heimsmeistaramótsins.