Með 12. sigrinum í röð í 2. deild þýska handknattleiksins er Bergischer HC, sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar við annan mann, öruggt um sæti í 1. deild á næstu leiktíð. Bergischer HC vann Ludwigshafen á heimavelli í gær, 32:27, og hefur 11 stiga forskot á GWD Minden sem er eina liðið sem hugsanlega getur náð Bergischer HC að stigum. Tvö efstu lið deildarinnar flytjast upp í efstu deild í vor.
Tjörvi Týr Gíslason skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer HC í sigurleiknum í gær. Arnór Viðarsson skoraði ekki að þessu sinni.
Ár er síðan að Arnór Þór tók við þjálfun liðsins ásamt Markus Pütz. Þá var Bergischer í bráðri fallhættu í 1. deildinni. Þrátt fyrir hressilegan lífróður fyrir áframhaldandi dvöl í deildinni kom allt fyrir ekki. Stefnan þar með tekin á að dvelja aðeins eitt tímabil í 2. deild. Markmiðið er í höfn og því var sannarlega fagnað.
Tap hjá Daníel Þór
Vonir HBW Balingen-Weilstetten, sem féll einnig úr 1. deild fyrir ári, um að endurheimta sæti sitt dofnuðu fremur en hitt í gær við eins marks tap fyrir Coburg, 35:34.
Daníel Þór Ingason skoraði ekki fyrir Balingen í leiknum. Hann kveður félagið í vor og mun að öllum líkindum flytja ásamt konu sinni, Söndru Erlingsdóttur, og ungum syni til Vestmannaeyja.