Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein í handknattleik karla er mættur með sveit sína til Danmerkur þar sem ekki verður ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Tveir leikir bíða landsliðs Barein gegn heimsmeisturum Danmerkur í Royal Arena í Kaupmannahöfn á fimmtudag og föstudag. Bareinar halda til Króatíu á laugardaginn. Fyrstu dagana verður liðið í hafnarbænum Umag áður en haldið verður til Zagreb þriðjudaginn 14. janúar.
Mætir m.a. Degi
Barein verður í erfiðum riðli á HM með landsliðum Argentínu, Egyptalands og Króatíu. Fyrsti leikurinn verður gegn Króötum í Zagreb 15. janúar hvar gömlu samherjarnir úr íslenska landsliðinu, Aron og Dagur Sigurðsson þjálfari Króatíu, mætast. Þeir hafa oft mæst á síðustu árum, ekki síst í Asíukeppni landsliða þegar Dagur stýrði japanska landsliðinu.
„Okkar helsta markmið verður að komast í milliriðlakeppnina HM,“ segir Aron í samtali við heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, og undirstrikar að það verður verðugt verkefni fyrir sig og landslið Barein. Íslenska landsliðið gæti verið einn andstæðinga í milliriðli.
Aron segir ennfremur að um þessar mundir séu að eiga sér stað kynslóðaskipti í landsliði Barein. „Yngri leikmenn taka aukna ábyrgð. Þar af leiðandi er þátttakan afar mikilvæg fyrir okkur,“ segir Aron sem hefur verið landsliðsþjálfari Barein frá 2018 að um einu ári undanskildu þegar Þjóðverjinn Michael Roth þjálfaði landsliðið í nokkrar vikur haustið 2020 áður en Halldór Jóhann Sigfússon tók við og stýrði landsliðinu fram yfir HM í Egyptalandi 2021.