Jafntefli varð í sannkölluðum Íslendingaslag í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld þegar Magdeburg og One Veszprém skildu jöfn, 26:26, í fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Magdeburg. Aron Pálmarsson jafnaði metin fyrir Veszprém, 26:26, þegar tvær mínútur voru eftir af leiktímanum. Rétt áður hafði Ómar Ingi Magnússon komið Magdeburg marki yfir. Síðari leikurinn fer fram í Ungverjalandi eftir viku.
One Veszprém var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11.
Ómar Ingi skoraði fjögur mörk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrisvar sinnum en gaf sex stoðsendingar.
Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir ungversku meistarana og gaf eina stoðsendingu. Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk.

Áfram herja meiðsli á herbúðir Magdeburg. Matthias Musche, vinstri hornamaðurinn, meiddist snemma leiks og kom ekkert meira við sögu eftir það. Óttast er að meiðsli hans séu alvarleg.
Albin Lagergren skoraði átta mörk fyrir Magdeburg og Lukas Mertens fimm mörk.
Frakkinn Ludovic Fabregas var frábær í liði One Veszprém og skoraði níu mörk í níu skotum.