Aron Pálmarsson lék afar vel með Aalborg í kvöld þegar liðið vann Fredericia Håndboldklub, 44:39, á heimavelli í níundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Aron skoraði fjögur mörk í fimm skotum og átti auk þess fimm stoðsendingar.
Rasmus Boysen fyrrverandi handknattleiksmaður og núverandi starfsmaður Skjern Håndbold segir að markametið í einum leik í dönsku úrvalsdeildinni hafi verið jafnað að þessu sinni. Metið er frá 2006 þegar Holstebro vann Mors Thy, 50:33.
Felix Claar skoraði 10 mörk og Mikkel Hansen skoraði átta sinnum og átti þrjár stoðsendingar fyrir Álaborgarliðið sem er efst í deildinni með 17 stig eftir leikina níu. Meistarar GOG eru þremur stigum á eftir og eiga leik til góða. GOG sækir Kolding heim á morgun. Kolding er í þriðja sæti.
Arnór Atlason var að vanda við hlíðarlínuna Stefan Madsen þjálfara Aalborg til halds og trausts og veitti ekki af í þessum mikla markaleik í Gigantium íþróttahöllinni.
Einari Þorsteini Ólafssyni leikmanni Fredericia Håndboldklub var einu sinni vísað af leikvelli. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia Håndboldklub. Liðið er sem stendur í sjöunda sæti með 9 stig.