Aron Pálmarsson kemur inn í lið Aalborg Håndbold í dag þegar Álaborgarar taka á móti norsku meisturunum Elverum i riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik.
Aron hefur ekkert leikið handknattleik síðan hann meiddist snemma í viðureign Íslands og Svartfjallalands á Evrópumótinu 26. janúar. Þá hafði hann nýlega losnað úr viku einangrun á hótelberbergi eftir að hafa smitast af kórónuveirunni.
Orri Freyr Þorkelsson er einnig í leikmannahópi Elverum í leiknum eins og í undanförum leikjum liðsins. Aron Dagur Pálsson er ekki í hópnum að þessu sinni.
Ólafur Andrés með gegn Kiel
Það er ekki bara Aron Pálmarsson sem verður í fyrsta sinn í hóp hjá sínu félagsliði í kvöld eftir langa fjarveru eftir Evrópumótið. Ólafur Andrés Guðmundsson er einnig skráður í keppnishópi Montpellier sem sækir Þýskalandsmeistara THW Kiel heim í kvöld.
Verður áfram fjarri góðu gamni
Sigvaldi Björn Guðjónsson er ennþá fjarri góðu gamni vegna meiðsla sem tóku sig upp undir gríðarlegur álagi sem hann var undir á EM. Sigvaldi Björn leikur ekki með pólska meistaraliðinu Vive Kielce gegn HC Motor frá Úkraínu í Kielce í kvöld. Haukur Þrastarson verður með Kielce eins og í undanförnum leikjum.