- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron og Bareinar í úrslit – Dagur leikur um brons

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Aron Kristjánsson stýrir landsliði Barein í úrslitaleik handknattleikskeppni karla á Asíuleikunum í Kína á fimmtudaginn. Aron og liðsmenn hans höfðu betur í undanúrslitaleik í morgun gegn Degi Sigurðssyni og lærisveinum í japanska landsliðinu, 30:28. Barein mætir landsliði Katar í úrslitaleiknum.


Dagur og japanska landsliðið leikur við landslið Kúveit um bronsverðlaunin. Kúveitar töpuðu fyrir Katarbúum, 29:24, í hinni viðureign undanúrslitanna. Katarar voru sterkari í síðari hálfleik eftir jafn stöðu liðanna að loknum fyrri hálfleik, 12:12.

Sakai var í markinu

Barein var fjórum mörkum yfir í leiknum við Japan í morgun, 17:13. Motoki Sakai, markvörður, sem lék með Val frá 2021 og þangað til í vor, stóð hluta leiksins í marki japanska landsliðsins og varði sjö skot, 30%. Kenya Kasahara leikmaður Harðar á Ísafirði var einnig í leikmannahópi japanska landsliðsins í morgun. Hann kom lítið við sögu.

Motoki Sakai glaður í bragði eftir leik með Val. Hann er markvörður japanska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Allt eftir bókinni í kvennaflokki

Í kvennaflokki kemur ekki á óvart að Suður Kórea og Japan leika til úrslita. Suður Kórea lagði Kína í undanúrslitum í morgun, 30:23. Japanska landsliðið vann stórsigur á landsliði Kasakstan, 40:22.

Suður Kórea og Japan mættust í lok ágúst í úrslitaleik í forkeppni fyrir Ólympíuleikana á næsta ári. Sigur í leiknum féll landsliði Suður Kóreu í skaut, 25:24, í hnífjöfnum leik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -