Landslið Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar leikur til úrslita um farseðil á Ólympíuleikana á næsta ári. Barein vann Katar í sannkölluðum háspennuleik í undanúrslitum forkeppni Ólympíuleikanna, Asíuhluta, í Doha í Katar í dag, 30:29. Sigurmarkið var skorað á allra síðustu sekúndum leiksins en hnífjafnt var á öllum tölum á síðustu mínútunum.
Barein mætir annað hvort Japan eða Suður Kóreu í úrslitum á laugardaginn. Sigurliðið tryggir sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum sem fram fara í París næsta sumar.
Bareinar voru marki yfir 15:14, að loknum fyrri hálfleik. Níu mínútum fyrir leikslok voru Bareinar með fjögurra marka forskot. Þá hófst gagnsókn Katar sem lauk með að þeir jöfnuðu metin, 27:27. Mikið gekk á á allra síðustu mínútunum en Aron og Bareinar fögnuðu að leikslokum eftir æsilega spennu.
Síðar í dag mætast Suður Kórea og Japan í hinni viðureign undanúrslitanna. Dagur Sigurðsson er þjálfari japanska landsliðsins sem unnið hefur alla leiki sína í mótinu fram til þessa.
Erlingur og Sádar í sjötta sæti
Í morgun tapaði landslið Sádi Arabíu, undir stjórn Erlings Richardssonar, fyrir Íran, 30:28, í leik um 5. sæti keppninnar. Íranar voru fjórum yfir í hálfleik, 17:13.
Kúveit hafði betur gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í leik um 7. sætið, 31:26. Kínverjar hrepptu níunda sætið eftir stórsigur á Kasakstan, 44:22.