Aron Kristjánsson og liðsmenn hans í landsliði Barein unnu í morgun afar mikilvægan sigur á Suður Kóreu í fyrst leik liða þjóðanna í átta liða úrslitum Asíuleikanna í Hangzhou í austurhluta Kína.
Eftir afar jafnan leik um skeið í síðari hálfleik voru Bareinar sterkari á endasprettinum og unnu með þriggja marka mun, 29:26.
Barein hefur þar með tvö stig eftir einn leik í A-riðli átta liða úrslita eins og Kúveit sem lagði Íran í morgun, 24:22. Bareinar takast á við Írana í fyrramálið að íslenskum tíma.
Í B-riðli hóf japanska landsliðið, undir stjórn Dags Sigurðssonar, keppni í átta lið úrslitum með sigri á kínverska landsliðinu, 28:23. Japan og Katar hafa tvö stig hvort en Katar burstaði Kasakstan, 46:13.
Japanska landsliðið leikur við Kasakstan í fyrramálið og mætir Katar á sunnudaginn í leik sem verður væntanlega uppgjör um efsta sæti riðilsins.