Leikmenn ungverska meistaraliðsins Veszprém sluppu svo sannarlega með skrekkinn á heimavelli í kvöld gegn Portúgalsmeisturum Sporting Lissabon í viðureign liðanna í 12. umferð Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Veszprém marði sigur, 33:32, eftir að Sporting átti möguleika á að jafna metin á síðustu mínútu. Boltinn tapaðist og ungverska liðið náði að halda sjó og fagna 11. sigri sínum í 12 leikjum í A-riðli. Þar með er einnig ljóst að Veszprém situr yfir í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar vegna þess að efsta sætið er í höfn hjá liðinu þótt tvær umferðir séu eftir.
Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting veittu leikmönnum Veszprém, með Aron Pálmarsson innanborðs, verulega keppni í leiknum. Tólf mínútum fyrir leikslok var Sporting marki yfir, 28:27. Veszprém skoraði tvö mörk í röð, náði frumkvæðinu og tókst að hanga á því til leiksloka.
Dómari veiktist
Það setti svip sinn á leikinn að annar dómarinn, Jesper Madsen, fékk aðsvif seint í fyrri hálfleik. Var hann borinn af leikvelli og færður undir læknishendur. Eftir samtöl milli þjálfaranna, eftirlitsmanns og hins dómarans var niðurstaðan sú að Mads Hansen dæmdi einn leikinn á enda.
Sporting er í þriðja sæti riðilsins með 15 stig, einu á eftir PSG en tvö efstu liðin fara beint í átta liða úrslit, sitja yfir í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Enn eru tvær umferðir eftir óleiknar.
Valdir kaflar: Veszprém – Sporting
Orri Freyr með fullkomna nýtingu
Orri Freyr og Martím Costa voru markahæstir hjá Sporting með átta mörk hvor. Orri Freyr nýtti öll sín skot til að skora mark.
Aron skoraði tvö mörk fyrir Veszprém og gaf eina stoðsendingu. Hugo Descat var markahæstur með átta mörk. Franski línumaðurinn Ludovig Fabregas skorði sjö sinnum og Gasper Marguc skoraði sex mörk.
Fór á kostum
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik í marki Wisla Plock í fimm marka sigri á Füchse Berlin, 32:27, á heimavelli. Með sigrinum halda Viktor Gísli og félagar í vonina að komast í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Þeir eru sem stendur í sjötta sæti af átta liðum en sjötta sætið er það síðasta sem veitir þátttökurétt í útsláttarkeppninni.
VIKTOR WALCZY DO KOŃCA! 🔥 pic.twitter.com/Rs8C6ZaGoY
— ORLEN Wisła Płock (@SPRWisla) February 20, 2025
Viktor Gísli varði 16 skot, 38% hlutfallsmarkvarsla og var skiljanlega í marki pólska meistaraliðsins frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.

Tomas Piroch skoraði 10 mörk fyrir Wisla og gaf fjórar stoðsendingar. Mijajlo Marseni skoraði fimm mörk fyrir Berlínarliðið. Daninn Mathias Gidsel skoraði aðeins eitt mark og gaf tvær stoðsendingar.
Valdir kaflar: Wisla Plock – Füchse Berlin
Staðan í A-riðli: