Jón Ómar Gíslason tryggði Haukum sæti í átta liða úrslitum þegar hann skoraði úr vítakasti í bráðabana vítakeppni gegn Val, 39:38, á Ásvöllum í kvöld í síðasta leik 16-liða úrslita Poweradebikarsins í handknattleik. Andartökum áður hafði Aron Rafn Eðvarðsson markvörður kórónað stórleik sinn með því að verja vítakast Dags Árna Heimissonar í fyrstu umferð bráðabana. Valur, sigursælasta lið bikarkeppni HSÍ er þar með úr leik.
Leikurinn var hin allra besta skemmtun og vel leikin í rífandi góðri stemningu á Ásvöllum. Tvær framlengingar, vítakeppni og síðan bráðabana í vítakeppni þurfti til þess að eitt mark skildi liðin að í sannkallaðri maraþonviðeign sem stóð yfir í hálfa þriðju klukkustund.
Hvort lið skoraði úr þremur vítaköstum af fimm í vítakeppninni. Marverðir liðanna, Aron Rafn Eðvarðsson og Björgvin Páll Gústavsson vörðu tvö vítaköst hvor. Eftir það tók við bráðabani sem lauk eftir eitt vítakast hjá hvoru liði.
Haukar voru lengst af með frumkvæðið. Valur náði góðum kafla rétt fyrir miðjan síðari hálfleik og tókst að komast fjórum mörkum yfir. Haukar létu ekki hug falla. Þeir jöfnuðu metin. Eftir það var leikurinn hreinlega stál í stál og mesta skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur og væntanlega enn fleiri sem fylgdust með í línulegri dagskrá á RÚV2 þar sem væntanlega er hægt að sjá endursýningu. Það er svo sannarlega þess virði.
Afturelding, FH, Fjölnir, Fram, Haukar, HK, ÍR og KA eiga sæti í átta liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla.
Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 10/1, Birkir Snær Steinsson 9, Hergeir Grímsson 5/3, Andri Fannar Elísson 4, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Jón Ómar Gíslason 2/2, Þráinn Orri Jónsson 2, Aron Rafn Eðvarðsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Freyr Aronsson 1, Össur Haraldsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 27/5, 41,5%.
Mörk Vals: Dagur Árni Heimisson 9/1, Allan Norðberg 6, Andri Finnsson 6/3, Magnús Óli Magnússon 4/1, Viktor Sigurðsson 3, Daníel Montoro 3, Gunnar Róbertsson 2/1, Dagur Leó Fannarsson 2, Daníel Örn Guðmundsson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 19/4, 32,8%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.