- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron rýfur 150 leikja múrinn – rúm 12 ár frá fyrsta landsleik

Aron Pálmarsson sækir að vörn Belga í sínum fyrsta A-landsleik í Laugardalshöll 29. október 2008. Mynd/Golli
- Auglýsing -

Aron Pálmarsson leikur í dag sinn 150. landsleik þegar íslenska landsliðið mætir ísraelska landsliðinu í undankeppni EM í Tel Aviv klukkan 17.30. Hann er leikjahæsti leikmaður íslenska hópsins sem valinn var til leikjanna þriggja sem fyrir dyrum standa næstu daga í undankeppni EM. Í landsleikjunum 149 hefur Aron skoraði 579 mörk.


Aron lék sinn fyrsta landsleik í Laugardalshöll 29. okótber 2008 þegar íslenska landsliðið tók á mótum Belgum í fyrstu umferð undankeppni EM 2010 og vann stórsigur, 40:21. Hann var þá nýlega orðinn 18 ára gamall og leikmaður FH. Síðar um veturinn samdi Aron við THW Kiel í Þýskalandi og gekk til liðs við félagið um sumarið 2009 sem var upphafið að einstaklega sigursælum ferli.


Í leiknum við Belga í Laugardalshöll lék Aron í ríflega 20 mínútur, skoraði tvö mörk og var í stöðu miðjumanns. „Ég myndi segja að ég hafi spilað meira en ég hafi átt vona, svona fyrirfram, og ég er mjög ánægður með það traust sem Guðmundur setur á mann,“ sagði Aron í samtali við Skúla Unnar Sveinsson, blaðamann Morgunblaðsins eftir leikinn.

Kjartan Þorbjörnsson, betur þekktur sem Golli ljósmyndari, vann árum saman á Morgunblaðinu. Hann setti inn eftirfarandi syrpu frá leiknum á Twitter í gærkvöld og gaf handbolta.is góðfúslegt leyfi til að nota myndina efst í þessari grein þar sem Aron er í sínum fyrsta landsleik. Á einni myndanna í syrpu Golla er Aron að aðstoða vin sinn, Loga Geirsson, við að koma eyrnalokk fyrir strax að leik loknum á fjölum Laugardalshallar.

Alls voru um 1.800 áhorfendur á leiknum og var aðgangur ókeypis af einhverjum ástæðum.


Að Aroni undanskildum tók enginn leikmaður í núverandi landsliðshóp þátt í leiknum við Belga 29. október 2008 í Laugardalshöll. Þá eins og nú var Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari og Gunnar Magnússon honum til halds og trausts.

1.000 marka múrinn rofinn

Þess má til gamans og fróðleiks geta að Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sitt 1000. mark fyrir landsliðið í leiknum við Belga. Hann skoraði 12 mörk en það níunda var hans 1.000. fyrir landsliðið og 22. mark íslenska landsliðsins í leiknum. Komst Guðjón Valur þar með í hóp með Kristjáni Arasyni og Ólafi Stefánssyni sem áður höfðu rofið 1000 marka múrinn. Guðjón Valur bætti 875 mörkum með landsliðinu áður hann lét gott heita fyrir ári.

Með eftir þriggja ára fjarveru

Einnig er rétt að geta þess að Þórir Ólafsson lék þarna sinn fyrsta landsleik í um þrjú ár. Hann átti síðan eftir að vera fastamaður í liðinu næstu ár á eftir og skoraði m.a. afar mikilvægt jöfnunarmark í leik við Norðmenn í undankeppni EM í Drammen nokkrum dögum síðar, 31:31.

Leikur Íslands og Ísraels hefst klukkan 17.30 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -