Aron Kristjánsson verður einn þriggja íslenskra þjálfara sem verður í eldlínunni á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem hefst í Póllandi og Svíþjóð 11. janúar. Aron er í óða önn að búa landslið Barein undir mótið og tekur m.a. þátt í fjögurra liða á móti á Alicante á Spáni frá 5. til 7. janúar.
Á mótinu mætir landslið Barein landsliðum Argentínu, Spánar og Rúmeníu. Argentína og Spánn taka þátt í HM eins og Bareinar.
Fyrsti leikur Barein á HM verður gegn Túnisbúum 13. janúar í Malmö. Í kjölfarið fylgja viðureignir gegn heimsmeisturum Dana og Belgíu 15. og 17. janúar, einnig í Malmö Arena. Belgar verða með á HM í fyrsta sinn.
Landslið Barein hafnaði í 21. sæti, næsta fyrir neðan Ísland, á HM í Egyptalandi fyrir tveimur árum undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar. Aron var síðan þjálfari Barein á Ólympíuleikunum í Tókýó sumarið 2021 hvar það komst í átta liða úrslit en tapaði fyrir Frakklandi sem síðar varð Ólympíumeistari.