Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari staðfesti í samtali við handbolta.is í dag að Aron Pálmarsson fyrirliði landsliðsins leikur ekki með gegn Grikkjum í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik annað kvöld. Aron er tognaður á kálfa og hefur ekki getað tekið þátt í æfingum landsliðsins í gær og í dag.
Spurður um stöðuna á leikmannahópnum eftir æfinguna í Chalkida í dag svaraði Snorri Steinn: „Aron er tæpur og hefur ekkert æft með okkur. Ég nenni ekki neinum feluleik eða pókerspili í þessum efnum. Aron verður ekki með á morgun. Sextán leikmenn eru heilir og þeir fylla skýrsluna.“
„Staðan er annars bara góð eftir tvær fínar æfingar og þann tíma sem við höfum þá er ég bara sáttur,“ segir Snorri Steinn sem ætlar að fara með hópinn í keppnishöllina fyrir hádegið á morgun og fara létt yfir helstu áherslumál. Sami háttur og var hafður á HM í janúar þegar leikið var seint að deginum. Viðureignin hefst klukkan 19 að staðartíma í Chalkida í Grikklandi.
Komumst ekki yfir allt
„Að sjálfsögðu komumst við ekki yfir allt sem við hefðum þurft að gera á þeim tíma sem við höfum saman. Við höfum einbeitt okkur að aðalatriðunum. Við erum til dæmis með tvo nýja menn í hægri skyttunni [Arnór Snær Óskarsson og Kristján Örn Kristjánsson] og notað meiri tíma í þá en annað. Við tökum síðan létta æfingu í fyrramálið. Eftir hana verðum við klárir í slaginn,“ segir Snorri Steinn og bætir við:
„Flestir strákarnir þekkja þetta umhverfi og hafa gengið í gegnum leiki í undankeppninni áður og vita að tíminn er skammur og að vinna þarf vel. Mönnum er ljóst hvað þeir eru að fara út í og hvað þarf til þess að vinna leiki. Þeir eiga að geta kallað það fram sama hver tímaramminn er,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is eftir æfingu landsliðsins í dag.
Lengra viðtal við Snorra Stein er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Leikur Grikklands og Íslands hefst klukkan 17 að íslenskum tíma á morgun, miðvikudag. Síðari viðureignin fer fram á laugardaginn í Laugardalshöll kl. 16. Miðasala er midix.is.