Aron Pálmarsson leikur ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik fyrr en í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik 22. janúar. Vegna meiðsla í kálfa situr hann hjá í vináttuleikjunum við Svía á fimmtudag og laugardag ytra og eins í viðureignunum þremur í riðlakeppni HM, gegn Grænhöfðaeyjum, Kúbu og Slóveníu. Kálfameiðslin hafa gert Aroni gramt í geði síðan landsliðið kom saman á öðrum degi ársins.
Setjum markið á milliriðil
„Það er planið eins og er en auðvitað vonast maður til þess að verða klár fyrr. Miðað við horfurnar þá er verið að setja markið þangað,“ segir Aron í samtali við handbolta.is spurður um hvort rétt væri að hann verði utan landsliðsins í þremur fyrstu leikjunum á HM en stefnan sett á að vera með í milliriðlakeppninni frá og með 22. janúar.
Ekkert alvarlegt
„Ég fékk smá í annan kálfann. Þetta er ekkert alvarlegt en við verðum að vera þolinmóðir og bíða þangað til að þetta verður alveg hundrað prósent svo að þetta fari ekki aftur,“ segir Aron sem verður að sýna þolinmæði og skynsemi.
„Ég hefði ekki talað svona fyrir 15 árum en maður verður að sætta sig við þetta,” segir Aron sem engu að síður spenntur fyrir komandi móti. „Vegna þess er þetta pínu högg en maður gerir allt þess að verða klár sem fyrst,“ segir Aron Pálmarsson.
Lengra myndskeiðsviðtal við Aron er inni í þessari frétt.
Heimsmeistaramótið í handknattleik karla hefst 14. janúar í Danmörku, Króatíu og Noregi. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 16. janúar. Áður HM hefst leikur íslenska landsliðið tvo leiki við Svía ytra 9. og 11. janúar. Báðir leikir verða sýndir á RÚV. Landsliðið fer til Svíþjóðar í fyrramálið.