- Auglýsing -
Aron Pálmarsson verður ekki með Aalborg í kvöld þegar liðið sækir TTH Holstebro heim í dönsku 1. deildinni í handknattleik en keppni í deildinni hefst á nýjan leik í kvöld eftir hlé vegna Evrópumótsins. Aron tognaði á kálfa snemma leiks Íslands og Svartfjallalands á miðvikudaginn fyrir rúmri viku.
Stefan Madsen þjálfari Danmerkurmeistaranna sagði í samtali við Nordjyske í gær að Aron væri á Íslandi og óvíst væri hversu lengi hann yrði frá vegna meiðsla.
Alls tóku sjö leikmenn Aalborg þátt í Evrópumótinu. Af þeim voru sex mættir til æfinga í vikunni. Madsen sagði ástand þeirra vera misjafnt en reiknaði með að þeir verði allir klárir í slaginn í kvöld.
Til viðbótar við meiðslin þá missti Aron af þremur leikjum á EM eftir að hafa smitast af kórónuveirunni. Sænsku leikmennirnir Lukas Sandell og Felix Claar smituðustu einnig á mótinu en hafa jafnað sig. Þeir tóku m.a. þátt í úrslitaleiknum á EM sem sænska landsliðið vann.
- Auglýsing -