Aron Pálmarsson leikur ekki með Barcelona í dag í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln. Eftir því sem Rasmus Boyesen greinir frá á Twitter þá er Aron meiddur. Óvíst er hvað hrjáir Hafnfirðinginn eða hvort hann verður með Barcelona á morgun en þá mun liðið annað hvort leika um gullið eða bronsið í keppninni.
Aron kom með Barcelonaliðinu til Kölnar á fimmtudaginn en það mátti glöggt sjá á myndum sem félagið deildi á samfélagsmiðlum.
Aron getur orðið fyrsti handknattleiksmaðurinn til þess að taka tíu sinnum þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar taki hann þátt í leik Barcelona á morgun.
Fyrri undanúrslitaleikur Meistaradeildarinnar hefst klukkan 13.15 og verður á milli Aalborg Håndbold og PSG frá Frakklandi. Barcelona og Nantes eigast við í hinni viðureign undanúrslitanna klukkan 16. Handbolta.is er ekki kunnugt um hvort mögulegt sé að sjá leikina með lögmætum hætti hér á landi.