- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ásbjörn lék við hvern sinn fingur og leiddi FH-inga til fyrsta sigursins

Ásbjörn Friðriksson var frábær í leiknum við Sävehof í kvöld. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


FH vann sinn fyrsta leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld þegar liðið lagði Svíþjóðarmeistarar IK Sävehof, 34:30, í Kaplakrika. FH-liðið lék afar vel í síðari hálfleik, ekki síst síðustu 20 mínúturnar þegar taflinu var snúið úr 22:18 forskoti Sävehof og upp í sigur, 34:30. Staðan í hálfleik var 18:15, Sävehof í vil en liðið hafði þá ráðið lögum og lofum allan hálfleikinn.

FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson fór á kostum í síðari hálfleik. Hann tók sóknarleik FH nánast yfir þegar á leið. Réðu Sävehof-liðar ekkert við Ásbjörn sem töfraði upp úr hatti sínum gamalkunnug tilþrif.

Varnarleikur FH-inga var framúrskarandi í síðari hálfleik auk þess sem Daníel Freyr Andrésson átti jafnan og góðan leik. Hann bjargaði FH-ingum oft í fyrri hálfleik og kom í veg fyrir að munurinn var ekki meiri en þrjú mörk að honum loknum.

Um leið og leikmenn FH voru búnir að jafna í síðari hálfleik var engu líkara en leikmennn Sävehof færu á taugum. FH-ingar gengu á lagið og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum, 28:27, með marki Garðars Inga Sindrasonar átta mínútum fyrir leikslok. Eftir það snerust vopnin alvarlega í höndum sænsku meistaranna sem máttu játa sig sigraða og vera þar með enn án stiga í riðlinum.

Ofan á skakkafallið að missa Aron Pálmarsson í burtu þá gat Jóhannes Berg Andrason ekkert leikið með FH í kvöld vegna meiðsla á rist sem hann hlaut í leik við Gróttu á föstudaginn.

Liðin mætast á ný í Partille í Svíþjóð eftir viku.

Það hefðu svo sannarlega fleiri mátt leggja leið sína í Kaplakrika í kvöld til þess að styðja FH-inga í þátttöku sinni í Evrópukeppninni. Vonandi leggja fleiri leið sína á síðasta heimaleik liðsins í riðlakeppninni 26. nóvember gegn Fenix Toulouse.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 9, Jón Bjarni Ólafsson 7, Garðar Ingi Sindrason 6, Símon Michael Guðjónsson 6, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Ingvar Dagur Gunnarsson 2, Ágúst Birgisson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12, 30%.
Mörk IK Sävehof: Óli Mittún 9, Emil Berlin 5, Gustaf Wedberg 5, Adam Blanche 3, Olle Ek 2, Magnus Persson 2, Sebastian Spante 2, Pontus Brolin 1.
Varin skot: Oscar Sävinger 9, 22,5% – Arvid Norén 1, 25%.

Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 3. umferð, úrslit, staðan

Handbolti.is var í Kaplakrika og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -