Ásgeir Jónsson varaformaður HSÍ hefur fengið í hendur staðfestingu á að honum verði hleypt inn í Egyptaland þegar hann kemur til landsins á morgun í þeim tilgangi að sitja þing Alþjóða handknattleikssambandsins sem hefst annað kvöld. Ásgeir fer frá Íslandi eldsnemma í fyrramálið og verður eini fulltrúi HSÍ á þinginu. Með vegabréfsáritunina upp á vasann er víst að hann fer ekki bónleiður til búðar.
Mikið hefur rætt um annir forseta IHF síðustu daga við að greiða fyrir vegabréfsáritunum fulltrúa sérsambanda sem sækja þingið. Varð forseti m.a. að gefa upp á batinn að vera viðstaddur úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna um síðustu helgi til að greiða úr vegabréfsumsóknum.
Eftirvænting ríkir vegna forsetakjörsins að þessu sinni vegna þess að forseti IHF, Hassan Moustafa, hefur fengið mótframboð í fyrsta sinn í 16 ár. Þjóðverjinn Gerd Butzeck, Slóveninn Franjo Bobinac og Hollendingurinn Tjark de Lange hafa skorað Moustafa á hólm.
Kosning forseta verður á sunnudag. Þá verður einnig kjörið til framkvæmdastjórnar og nefnda af ýmsu tagi.
HSÍ eins og önnur aðildarsambönd IHF fer með eitt atkvæði í kosningunum.


