Ásgeir Jónsson varaformaður HSÍ verður fulltrúi Íslands á þingi Alþjóða handknattleikssambandsins sem fram fer í Kaíró í Egyptalandi 19. – 21. desember. Töluverð eftirvæning ríkir vegna þingsins þar sem kjörinn verður forseti IHF til næstu fjögurra ára. Hassan Moustafa, forseti IHF síðustu 25 ár, gefur kost á sér til endurkjörs. Þrír hafa skorað Moustafa á hólm, Þjóðverjinn Gerd Butzeck, Slóveninn Franjo Bobinac og Hollendingurinn Tjark de Lange.
Ræða við frambjóðendur
Ásgeir sagði í svari við skilaboðum til handbolta.is að stjórn HSÍ hafi ekki gert upp hug sinn í forsetakjörinu. „Við erum að ræða við alla frambjóðendur þessa dagana og eigum eftir að taka ákvörðun um hvern við munum styðja,“ segir Ásgeir Jónsson varaformaður HSÍ.
Eins og gráir kettir
Butzeck, Bobinac og de Lange voru eins og gráir kettir víðsvegar á heimsmeistaramóti kvenna í Þýskalandi þegar handbolti.is var ytra á dögunum. Fóru þeir á milli gististaða landsliðanna til að ræða við forsvarsmenn sérsambanda til að afla framboðum sínum stuðnings. Einnig sáust þremenningarnir á keppnisstöðum.
Sást hvergi
Hassan Moustafa, sem er 81 árs, var hvergi sjáanlegur á leikjum HM í Þýskalandi, ekki einu sinni við opnunarhátíðina í Stuttgart. Eftir því sem næst verður komist er Moustafa væntanlega til Rotterdam áður en úrslitaleikur HM kvenna fer fram á sunnudaginn.
Egyptinn Hassan Moustafa var kjörinn forseti IHF árið 2000. Hann bauð sig fram gegn Austurríkismanninum Erwin Lanc sem hafði verið forseti í 16 ár. Lanc dró framboð sitt til baka áður en kom til atkvæðagreiðslu.
Fjórum árum síðar skoraði Svíinn Staffan Holmqvist Egyptann á hólm en hafði ekki erindi sem erfiði. Moustafa fékk 85 atkvæði, Holmqvist 46.
Árið 2009 bauð Lúxemborgarinn Jean Kaiser sig fram á móti Moustafa. Kaiser hlaut 25 atkvæði af 142 en Moustafa 115. Moustafa var endurkjörinn án mótframboðs 2013, 2017 og 2021.
Moustafa varð 81 árs 28. júlí sl.


