- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Átak þarf til að sporna gegn brottfalli vegna veirunnar

- Auglýsing -

Íþróttastarf á höfuðborgarsvæðinu hefur meira og minna legið niðri síðustu vikur. Í viku hafa æfingar íþróttafélaga verið óheimilar um land allt og verða alltént til 17. nóvember. Í mars og apríl lágu æfingar einnig meira og minna niðri. Eins keppni sem fyrir suma er gulrótin fyrir æfingarnar

Íþróttir í skólum hafa lítið verið stundaðar í haust í og byrjun vetrar, þar með talið sund. Sömu sögu var að segja í vor.

Ekki dreg ég í efa nauðsyn þess að allir standi saman í baráttunni við kórónuveiruna. Ekki má slá slöku við í baráttunni við að kveða hana í kútinn. Í þessum efnum verða allir að leggjast saman á árar.

Til lengri tíma litið

Ég er hugsi yfir hvaða áhrif þessar staðreyndir hafa á íþróttaiðkun barna og unglinga, ekki síst unglinga til lengri tíma. Barátta gegn brottfalli unglinga úr skipulögðu íþróttastarfi er eilífðarverkefni íþróttahreyfingarinnar. Ég óttast að ástandið geti haft slæm áhrif þegar til lengri tíma er lítið, bæði á unglinga og eins þau börn sem voru nýlega byrjuð í vor eða í haust. Mörg þeirra taki ekki upp þráðinn þegar ástandinu linnir.

Forseti Íslands vakti máls á þessu í pistli sínum á dögunum og skrifaði m.a.: „Hertar varnir gegn veirunni verða því miður til þess að íþrótta- og æskulýðsstarf fellur niður næstu vikurnar eða er háð miklum takmörkum. Engum blöðum er um það að fletta hversu erfitt þetta er fyrir mörg ungmenni landsins.“

Róðurinn þyngist

Mörg íþróttafélög reyna eftir megni að halda börnum og unglingum við efni. Fyrir það ber að þakka um leið og lýst er aðdáun á þjálfurum og félögum að reyna hvað þau geta til að halda sambandi við iðkendur vikum og mánuðum saman. Róðurinn þyngist eftir því sem líður á. Það sem í fyrstu var spennandi snýst jafnvel upp í andhverfu sína

Frumkvæði skortir

Í þessum efnum eins og fleirum tengdum íþróttahreyfingunni á tímum kórónuveirunnar skortir frumkvæði af hálfu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Forystuleysið er átakanlegt, eða það þykir mér sem hef alist upp í návígi við íþróttahreyfinguna í liðlega fimm áratugi.

Nánast það eina sem hefur heyrst frá þeim bæ er að við þau eldri eigum að fara út og ganga og hlaupa. Vissulega gott og gilt. Mörg okkar eldri sláum ekki slöku við og þurfti ekki veirufjandann til. Neðanritaður þekkir það á eigin skinni hversu gott það er jafnt fyrir líkama sem sál að hefja daginn á hreyfingu úti við í öllum veðrum eða að standa upp frá daglegum önnum, gefist tök á, og skreppa út í röska gönguferð, skokk eða fellagöngu.

Er til of mikils mælst?

Að frumkvæði eða hvatning komi frá ÍSÍ til barna og unglinga er víst til of mikils ætlast. Það á sennilega að vera í höndum sérsambandanna sem flest hver standa á brauðfótum og félaganna sem skrimta við hungurmörk og eru í flestum tilfellum undir stjórn sjálfboðaliða sem jafnvel hafa misst vinnu á undanförum vikum og mánuðum.

Í þessum efnum eins og flestu öðru sem snýr að viðbrögðum íþróttahreyfingarinnar skilar ÍSÍ auðu. Vonandi nýta menn þá tímann núna að einhverju leyti til þess að búa til áætlun til að styrkja, þá á ég ekki við fjárhagslega í gegnum ríkissjóð, sérsambönd og íþróttafélög til stórsóknar í íþróttum barna og unglinga þegar ástandið batnar. Ef ekki þá fer ég að halda að forysta ÍSÍ í málefnum íþróttahreyfingarnnar sitji aðeins að nafninu til.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -