Eins og við var að búast þá var lið Helvetia Anaitasuna þeim Aroni Pálmarssyni og samherjum í Barcelona ekki mikil fyrirstaða í kvöld í upphafsleik þeirra í spænsku 1. deildinni í handknattleik. Lokatölur voru 31:18 en að loknum fyrri hálfleik stóðu leikar, 17:8.
Viðureignin var hrein einstefna af hálfu Katalóníurisans sem talið er að verði ekki í vandræðum með að vinna spænska meistaratitilinn í 28. sinn á keppnistímabilinu, og þar með þann ellefta í röð.
Aron skoraði tvö mörk í þremur skotum. Eins og vant er þá var leikjaálaginu dreift mjög á milli leikmanna Barcelona-liðsins. Aleix Gómez Abelló var markahæstur með sjö mörk, Mamadou Lamine Diocou skoraði fimm mörk og slóvenski hornamaðurinn Blaz Janc, sem kom til Barcelona í sumar frá Kielce í Póllandi, skoraði fjórum sinnum.