Handknattleikskonan þrautreynda, Hildigunnur Einarsdóttir hefur ákveðið að hætta í vor eftir langan og farsælan feril, þar af síðustu fjögur ár með Íslandsmeisturum Vals. „Ég ákvað í vetur að láta gott heita eftir keppnistímabilið. Ég velti þessu fyrir mér í fyrra en ákvað að taka eitt ár til viðbótar. Núna finn ég að þetta er rétt ákvörðun,“ segir Hildigunnur í samtali við handbolta.is í dag.
Níu ár í atvinnumennsku
Hildigunnur gekk til liðs við Val á ný sumarið 2021 eftir níu ár í atvinnumennsku í Noregi, Svíþjóð, Austurríki og Þýskalandi. Áður hafði hún leikið með Val og Fram hér heima. M.a. varð Hildigunnur landsmeistari í Austurríki með Hypo Niederösterreich 2018.
„Ég er mjög sátt við þá tilhugsun að hætta eftir langan og góðan feril,“ segir Hildigunnur sem leikið hefur 106 landsleiki, þá síðastu fyrir ár. Hún var í landsliðinu á HM 2023.
Var alltaf markmiðið
„Mér finnst mjög gott að geta hætt á mínum forsendum með mínu félagi Val. Það var alltaf markmið mitt þegar ég lék úti að koma heim og ljúka ferlinum með Val en verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að leika til 37 ára aldurs,“ segir Hildigunnur með bros á vör.
Bara stórir leikir eftir
„Nú eru bara stórir leikir eftir á ferlinum. Vinnan sem maður leggur á sig æfingarnar er fyrir úrslitaleikina,“ segir Hildigunnur sem leikur með Val í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í á Hlíðarenda á sunnudaginn klukkan 17.30 gegn MSK IUVENTA Michalovce frá Slóvakíu. Eftir leikinn tekur fljótlega við úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn og vonandi úrslitaleikir í Evrópubikarkeppninni gangi allt upp hjá Val á sunnudaginn.
Lengra viðtal við Hildigunni er að finna í myndskeiði ofar í þessari grein.

Síðari viðureign Vals og slóvakísku meistaranna MSK IUVENTA Michalovc fer fram í N1-höllinni á Hlíðarenda á sunnudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.
Rétt er að hvetja handknattleiksáhugafólk til þess að fjölmenna á Hlíðarenda á sunnudaginn og styðja Valsliðið til sigurs. Íslenskt kvennalið hefur aldrei leikið til úrslita í Evrópukeppni félagsliða.