Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson hafa leikið stórt hlutverk hjá sænska úrvalsdeildarliðinu IFK Kristianstad á keppnistímabilinu eins og undanfarin ár. Nú þegar deildarkeppninni er lokið og úrslitakeppnin er framundan liggur tölfræði uppgjör deildarkeppninar fyrir. Þeir félagar hafa greinilega verið allt í öllu hjá Kristianstad-liðinu.
Þar kemur í ljós að Ólafur Andrés er í þriðja sæti yfir þá sem áttu flestar stoðsendingar í leikjum tímabilsins. Alls átti Ólafur Andrés 104 stoðsendingar. Teitur Örn er í fimmta sæti á sama lista með 100 sendingar. Flestar stoðsendingar átti Jonathan Edvardsson, leikmaður Sävehof, 113.
Þriðji Íslendingurinn í fremstu röð á lista yfir þá sem eiga flestar stoðsendingar er Aron Dagur Pálsson, leikmaður Alingsås. Hann situr í 13. sæti með 76 stoðsendingar.

Teitur markahæstur
Teitur Örn er markahæstur Íslendinga í sænsku úrvalsdeildinni með 97 mörk og er í 31. sæti. Ólafur Andrés er í í 44. sæti með 83 mörk og Aron Dagur er í 69. sæti með 68 mörk. Markahæsti maður deildarinnar er Isak Persson hjá Lugi með 177 mörk.
Teitur Örn á samanlagt þátt í 197 mörk um Kristianstad í deildinni í vetur. Ólafur Andrés með 187 mörk og stoðsendingar samanlagt. Þeir félagar áttu þátt í 46% mörkum Kristianstad.

Aron Dagur átti þátt í 144 mörkum Alingsås þegar mörk og stoðsendingar eru dregin saman. Það er rúmlega 18% af mörkum liðsins á leiktíðinni.
Daníel Freyr í þriðja sæti
Daníel Freyr Andrésson hefur átt afar gott tímabil með Guif frá Eskilstuna sem átti ekki hvað sístan þátt í að liðið tryggði sér á elleftu stundu sæti í átta liða úrslitum um sænska meistaratitilinn.
Daníel Freyr er í þriðja sæti yfir markverði deildarinnar þegar eingöngu er litið til varinna skota. Samtals varði hann 286 skot af 843, sem gerir 34% hlutfallsmarkvarsla. Ef aðeins er litið til prósentuhlutfalls varinna skota er Daníel Freyr í 17. sæti. Sá listi er hinsvegar æði skrautlegur. T.d. lék sá sem er í efsta sæti aðeins einn leik og varði annað af tveimur skotum sem hann fékk á sig.
Úrslitakeppnin um sænska meistaratitilinn hefst 17. mars.