„Ef við ætlum að vera nær þeim liðum, sem talin eru vera betri en við, þá getum við ekki kastað boltanum svo oft frá okkur á einfaldan hátt eða verið með þá skotnýtingu sem við vorum með að þessu sinni,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu, eftir að lið hans tapaði fyrir Stjörnunni, 28:24, á heimavelli í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í gærkvöld.
Gróttumenn áttu í erfiðleikum í sóknarleiknum nánast frá upphafi til enda. Þegar upp var staðið reyndist það vera meginmunurinn á liðunum.
Köstuðum boltanum frá okkur
„Fyrir mér er ekki um flókinn útreikning að ræða þegar þessi viðureign er gerð upp. Við vorum á pari við Stjörnuna í varnarleiknum og Einar Baldvin [Baldvinsson] var fínn í markinu í fyrri hálfleik. En við köstum boltanum alltof oft frá okkur. Tvígrip, skref og slök skotnýting varð þess valdandi að við vorum á eftir Stjörnunni að þessu sinni,“ sagði Arnar Daði sem er að hefja sitt annað keppnistímabil með Gróttuliðið í Olísdeildinni í næstu viku.
Hefði ekki nægt gegn mörgum liðum
„Við hefðum ekki unnið mörg lið með þeirri frammistöðu sem við sýndum í sóknarleiknum í dag. Liðið er skipað ungum og lítt reyndum leikmönnum sem hitta ekki alltaf á sinn besta dag. Munurinn var reyndar ekki nema fjögur mörk þegar upp var staðið og við áttum ekki skilið að fá meira út út leiknum miðað við frammistöðu,“ sagði Arnar Daði en hans menn voru um skeið sex mörkum undir í fyrri hálfleik, 12:6, og náði aldrei að ógna Stjörnunni þegar kom fram í síðari hálfleik.
Verðum að hafa fyrir sigrunum
Arnar Daði viðurkenndi að Gróttuliðið verði að hafa mikið fyrir hverjum sigri á komandi keppnistímabili. Hann segir það vera skemmtilega áskorun fyrir allt til að glíma við.
„Við erum að djöflast á æfingum sex til sjö sinnum í viku í þeim tilgangi að vaxa og dafna. Leikmennirnir eru hér í þeim tilgangi. Hjá okkur fá þeir tækifæri til þess að sýna úr hverju þeir eru gerðir í stað þess að sitja kannski á bekknum hjá öðrum liðum. Það er ekki hægt að saka strákana um að hafa ekki barist í kvöld. Hinsvegar er ekki alltaf víst að handboltaleg gæði séu fyrir hendi í hvert skipti sem þeir stíga út á leikvöllinn,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, í samtali við handbolta.is í Hertzhöllinni í gærkvöld.