- Auglýsing -
- Auglýsing -

Áttum erfitt með að ráða við sleggjurnar

Einar Jónsson þjálfari Fram. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Því miður þá vantaði meiri gæði hjá okkur. Við vorum sjálfum okkur verstir á kafla í leiknum auk þess sem við áttum erfitt með að ráða við sleggjurnar í sókninni hjá Aftureldingu. Okkur tókst ekki að mæta þeim nógu vel, sama hvað við gerðum,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram eftir tap fyrir Aftureldingu í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar karla, 33:30. Framlengja varð leikinn til þess að knýja fram úrslit.


„Við verðum að fara vel yfir málin og gera betur í næsta leik. Það er alveg ljóst,“ sagði Einar ennfremur en liðin mætast á ný á miðvikudagskvöldið á Varmá. Fram verður að vinna til þess að knýja fram oddaleik.

Fá að taka fjögur og fimm skref

„Með fullri virðingu fyrir leikmönnum Aftureldingar þá er nú enn erfiðara að eiga við þá þegar þeir alltaf að taka fjögur og fimm skref og djöflast þannig áfram. Af þessu leiddi að við vorum skrefi á eftir og lendum aftan í þeim og fengum á okkur tvær mínútur í staðinn. Mér fannst annað vera upp á teningnum hinum megin vallarins, svo ég haldi nú áfram að tuða í dómurunum eins og ég er vanur. Oftast hef ég þó rétt fyrir mér. Sjáðu sem dæmi brottreksturinn undir lok leiksins. Hann var ekki í takti við leikinn,“ sagði Einar sem var ekki ánægður með dómgæsluna að þessu sinni.

Verðum að líta inn á við

„Þrátt fyrir allt þá verðum við fyrst og síðast að líta inn á við til að bæta okkar leik á miðvikudaginn. Við getum gert það á öllum sviðum, jafnt í vörn sem sókn. Fram að næsta leik verðum við að nýta tímann vel.


Ég er veit að við mætum galvaskir til leiks á miðvikudaginn því ekkert kemur annað til greina en að fá oddaleik hér heima um næstu helgi,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram við handbolta.is eftir tap Fram fyrir Aftureldingu í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -