PAUC-Aix, liðið sem Kristján Örn Kristjánsson, Donni, leikur með vann í kvöld sinn áttunda leik í röð í frönsku úrvalsdeildinni í handknattleik er það tók á móti Kiril Lazarov og félögum í Nantes, lokatölur, 31:29. PAUC-liðið hefur farið á kostum á leiktíðinni og er nú komið upp í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig. Liðið hefur leikið færri leiki en þau sem eru fyrir ofan. Aðeins PSG hefur tapað færri leikjum í deildinn en Donni og samherjar. PSG vann Montpellier í kvöld, 36:32, og var það fyrsti tapleikur Montpellier-liðsins.
Donni skoraði eitt mark í kvöld en átti þrjú markskot. PAUC var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfeik, 14:12, og var með yfirhöndina allan síðari hálfleikinn, tvö til þrjú mörk.
Wesley Pardin, markvörður PAUC, átti enn einn stórleikinn í markinu í kvöld. Hann varði 15 skot. Mörgum þykir Pardin standa í dag fremstur meðal franskra markvarða.
Kiril Lazarov náði sér ekki á strik gegn Pardin og varnarmönnum PAUC. Hann skoraði aðeins eitt mark í sex skotum.
Leikurinn var sérstakur fyrir hinn þrautreynda þjálfara PAUC, Thierry Anti. Þetta var í fyrsta sinn sem hann mætir sínu gamla liði eftir að hann hætti þjálfun þess sumarið 2019 eftir áratug í þjálfarstólnum. Anti byggði upp á þeim tíma frábært lið sem m.a. lék til úrslita í Meistaradeild Evrópu vorið 2018. Hann hætti hjá Nantes árið eftir og flutti til Portúgal þar sem hann þjálfaði í eitt ár áður en hann kom heim til Frakklands á nýjan leik sumar til að taka við PAUC-Aix.