- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aukin reynsla og trú á eigin hæfileikum

Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk í dag. Mynd/Stuttgart
- Auglýsing -

Viggó Kristjánsson hefur vakið mikla athygli í þýsku 1. deildinni í handknattleik það sem af er leiktíðar. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar um þessar mundir með 37 mörk eftir fimm umferðir, ríflega sjö mörk að jafnaði í leik.


Viggó, sem er 26 ára gamall, hefur leikið utan landssteina Íslands í nokkur ár. Eftir að hafa verið hjá Gróttu frá barnæsku, og um skeið gefið handboltann upp á bátinn og snúið sér að knattspyrnu, þá gekk hann til liðs við Randers í Danmörku sumarið 2016. Að lokinni eins árs veru í Danmörku flutti Viggó til Austurríkis og lék með West Wien í tvö ár. Að loknum árunum tveimur í Vínarborg samdi Viggó við Leipzig í Þýskalandi. Dvölin þar varði ekki nema í nokkra mánuði vegna þess að í byrjun nóvember, fyrir ári, var Viggó seldur frá Leipzig til Wetzlar sem þá bráðvantaði örvhentan leikmann. Um svipað leyti lék Viggó sína fyrstu A-landsleiki.

Stuttgart kom inn í myndina

Fljótlega eftir komuna til Wetzlar spurðist út að forráðamenn Stuttgart renndu hýru auga til Seltirningsins, að þeir vildu fá hann til félagsins fyrir næsta keppnistímabil. Þótt leynt færi þá var ljóst að þriðji flutningurinn á einu ári væri á næsta leiti.


Viggó átti gott tímabil með Wetzlar og lék vel með landsliðinu á EM í Svíþjóð í janúar. Það sem af er núverandi keppnistímabils er eins og hann hafi sprungið út sem handknattleiksmaður. Hvað hefur breyst, ef þá eitthvað? Handbolti.is sló á þráðinn til Viggós í Stuttgart í morgun.

EM og aukin reynsla


„Það er erfitt að segja að eitthvað eitt umfram annað hafi hjálpað mér. Frekar nokkrir samverkandi þættir. Þar má nefna aukin reynsla. Ég fékk mikla reynslu í fyrra þegar ég lék með tveimur liðum undir stjórn tveggja ólíkra en mjög góðra þjálfara. Einnig lærði ég mikið af þátttöku minni með landsliðinu á fyrsta stórmótinu sem ég tók þátt í, Evrópumótinu í Svíþjóð. Bara að fá að æfa með og vera í kringum Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson, svo dæmi séu tekin, gaf mér mikið. Sjá hvernig þeir æfðu og nálguðust leiki og æfingar. Ég öðlaðist reynslu við að æfa með þeim og taka ráðleggingum þeirra,“ sagði Viggó.

Hafa bara spilast svona


„Undirbúningstímabilið í sumar og í haust gekk líka afar vel hjá mér. Reynslan jókst og sjálfstraustið um leið. Ég sá fram á að fá stórt hlutverk í liðinu ef ég stæði mig. Eftir að tímabilið hófst hefur mér gengið vel. Ég hef hinsvegar ekki sett á mig pressu fyrir hvern leik með því að ætla mér að skora sjö, átta eða níu mörk í leik. Leikirnir hafa bara spilast þannig að sú hefur orðið raunin. Ég vona að mér takist að halda áfram á þessum nótum.“


Spurður um hvort það hjálpi honum eitthvað að vera e.t.v. ekki mikið þekktur eftir að hafa leikið eitt tímabil í þýsku 1. deildinni segir Viggó það svo sem einnig geta verið einn þáttur í velgengninni.

Snýst um að trúa á sjálfan sig


„Fyrst og fremst er sjálfstraustið meira í að hafa trú á eigin getu og taka þeim marktækifærum sem bjóðast. Á síðasta tímabili gerði ég kannski meira af því að láta boltann ganga áfram í stað þess að kasta á markið þegar tækifæri gafst. Ég geri auðvitað mistök nú eins og áður en nú hef ég mikið traust frá þjálfaranum mínum. Hann kippir manni ekki strax út ef maður gerir mistök,“ segir Viggó sem hefur meira frjálsræði en stundum áður til þess að taka ákvarðanir í sóknarleik Stuttgart-liðsins.

Hárrétt skref


Viggó samdi við Stuttgart nokkru áður en síðasta keppnistímabili lauk nokkuð snögglega í mars þegar kórónuveiran fór að leika lausum hala í Þýskalandi. Eftir á að hyggja segir hann það hafa verið hárrétt skref hjá sér þótt að á þeim tíma þegar hann samdi hafi hann lítið haft annað fyrir sér en tilfinninguna um að það gæti verið gott skref að fara til Stuttgart. Gera tveggja ára samning og festa sig í sessi í þýsku 1. deildinni eftir að hafa leikið með tveimur liðum á sínu fyrsta tímabili í deildinni.


„Fyrst og fremst þá er það í mínum höndum að ná árangri. Ég einn ræð því hvernig framhaldið verður og hvernig úr því spilast. Ég renndi blint í sjóinn með styrkleika mína jafnt sem veikleika við komuna til Þýskalands frá Austurríki sumarið 2019. Ég fann það þegar ég fór að spila að ég var samkeppnisfær. Það var mjög gott. Þess vegna var ekkert annað að gera í vetur en að hafa trú á sjálfum sér,“ segir Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður og leikmaður Stuttgart í Þýskalandi og nú markahæsti leikmaður 1. deildar.



- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -