- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Austurríkismenn voru hársbreidd frá forkeppnissæti ÓL

Austurríkismenn fögnuðu jafnteflinu en leikmenn þýska landsliðsins voru ekki sáttir við stigið. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Austurríkismenn voru hársbreidd frá því að tryggja sér farseðilinn í forkeppni Ólympíuleikanna í handknattleik karla í kvöld. Þeir misstu þriggja marka forskot niður í jafntefli gegn Alfreð Gíslasyni og liðsmönnum þýska landsliðsins í Lanxess Arena í Köln í kvöld, 22:22.

Þar með á íslenska landsliðið enn von um að hreppa sætið eftirsótta. Til þess verður liðið að vinna báða leiki sem eftir eru, þar á meðal við austurríska landsliðið á miðvikudaginn. Auk þess má Austurríki heldur ekki krækja í stig gegn Frökkum á mánudaginn.

Austurríkismenn voru fjórum mörkum yfir, 22:18, þegar níu mínútur voru eftir af leiknum við Þjóðverja í kvöld. Segja má að leikmenn hafi kiknað undan álaginu en það voru 19.500 áhorfendur á bandi þýska liðsins. Heimamönnum tókst að jafna metin, 22:22, eftir að tvær sóknir þeirra í stöðunni 22:21 höfðu runnið í sandinn.

Christoph Steinert skoraði jöfnunarmarkið 51 sekúndu fyrir leikslok. Austurríkismenn hófu sókn í kjölfarið en misstu boltann 16 sekúndum fyrir leikslok þegar sending á hægri hornamanninn endaði fyrir utan leikvöllinn. Þýska liðið reyndi að skora sigurmarkið á allra síðustu sekúndunum en lánaðist það ekki.

Juri Knorr skoraði sex mörk fyrir þýska landsliðið og var markahæstur. Timo Kastening var næstur með fjögur mörk. Mykola Bylik var markahæstur í austurríska liðinu með fimm mörk.

Andreas Wolff varði 14 skot í marki þýska landsliðsins, 38,9%. Constantin Möstl gerði betur í austurríska markinu. Hann varði 17 skot, 47,2%.

Stöðuna í milliriðlunum og hvaða leikir eru eftir er að finna í greininni hér fyrir neðan:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -