Axel Stefánsson og Kenneth Gabrielsen þjálfarar Storhamar voru kjörnir þjálfarar ársins í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna. Undir stjórn þeirra félaga hafnaði Storhamar í öðru sæti í deildinni og í úrslitakeppninni.
Stærsta afrek Axel og Gabrielsen var sigur Storhamar í Evrópudeildinni í handknattleik kvenna í síðasta mánuði. Axel var þar með fyrsti íslenski þjálfarinn sem stýrir liði til sigurs í Evrópukeppni félagsliða.
Sjá einnig: Axel fagnaði Evrópumeistaratitli með Storhamar
Axel er að láta af störfum hjá Storhamar eftir að hafa þjálfað liðið í þrjú ár í samvinnu við Gabrielsen. Hyggst Axel snúa sér að kennslu sem hann hefur sinnt samhliða þjálfun undanfarin ár.
Axel þjálfaði kvennalandslið Íslands frá 2015 til 2018. Hann hefur búið í Noregi um langt árabil og þjálfað félagslið, jafnt í karla- sem kvennaflokki. Um skeið þjálfaði Axel yngri landslið Noregs og létti undir með Þóri Hergeirssyni landsliðsþjálfara kvenna.