Axel Stefánsson varð í gær norskur meistari í handknattleik kvenna með Storhamar Håndball Elite. Axel er einn þjálfara liðsins. Hann kom aftur inn í þjálfarateymið í desember eftir nokkurra mánaða fjarveru. Storhamar innsiglaði sinn fyrsta meistaratitil með sigri á Sola í Stafangri í gærköld, 31:29.
Liðið sem vinnur deildina í Noregi verður meistari.
Sigurlið úrslitakeppninnar verður úrslitakeppnismeistari og vinnur sér keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Storhamar hefur hlotið silfurverðlaun mörg síðustu árin og stóð í skugga Vipers Kristiansand en síðarnefnda liðið varð gjaldþrota í janúar.
Storhamar varð bikarmeistari snemma árs og vann Evrópudeildina leiktíðina 2023/2024.
Ein umferð eftir
Ein umferð er eftir í norsku úrvalsdeildinni. Fer hún fram á laugardaginn. Storhamar tekur á móti Follo. Í leikslok verða sigurlaunin afhent. Mikil hátíð er í undirbúningi meðal stjórnenda og stuðningsmanna Storhamar sem hefur fjögurra stiga forskot á Larvik sem er í öðru sæti. Sola situr í þriðja sæti.
Úrslitakeppnin tekur við síðar í þessu mánuði.
En gullhistorie til å bli rørt av
Elías í áttunda sæti
Fredrikstad Bkl., sem Elías Már Halldórsson þjálfar, er í áttunda sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina. Fredrikstad tapaði í fyrradag, 35:32, í heimsókn til Byåsen. Fyrir síðasta leikinn er eins stigs munur á Fredrikstad og Oppsal sem er í níunda sæti. Fredrikstad tekur á móti Sola á laugardaginn. Oppsal fær Romerike Ravens í heimsókn á sama tíma.
Það kom fram í fréttum í vetur að Elías Már lætur af störfum hjá Fredrikstad í sumar.