Ekkert séríslenskt lag verður leikið í keppnishöllinni í Kristianstad annað kvöld fari svo að íslenska landsliðið í handknattleik vinni Ungverja. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum. Gangi þetta eftir verða 3.000 Íslendingar í keppnishöllinni að taka til sinna og ráða og syngja fyrir landsliðið með eigin texta sem þeim líkar best.
Að loknum tveimur síðustu leikjum íslenska landsliðsins í Kristianstad hefur verið leikið „Lífið er yndislegt“ úr hljóðkerfi íþróttahallarinnar og íslenskir stuðningsmenn tekið vasklega undir ásamt landsliðsmönnum. Á síðustu árum hefur söngur Óðins Valdimarssonar og texti Jóns Sigurðssonar, „Ég er kominn heim“, hljómað eftir landsleiki og áhorfendur sungið við raust.
Óheppileg uppákoma
Eftir óheppilega uppákomu sem varð að loknum leik Króata og Georgíumanna í fyrrakvöld, þegar lag með þjóðernissinnuðum tónlistarmanni ómaði í leikslok, mun EHF taka fyrir að leikin verði óskalög þjóða. Samkvæmt heimildum handbolti.is þurfti að ganga hart fram eftir viðureignina í gær við Pólverja til þess að fá „Lífið er yndislegt“ leikið enda hljómaði lagið ekki fyrr en töluvert eftir að leiknum var lokið.
Hvort verður ofan á?
Þá stendur bara eftir spurningin, ef Íslendingar syngja með eigin nefi eftir leikinn annað kvöld ef sigur vinnst; hvort verður „Ég er kominn heim“ eða „Lífið er yndislegt“ ofan á? Mjög skiptar skoðanir eru á meðal Íslendinga í Kristianstad hvort lagið eigi að vera ofan á.



