„Mér fannst vera kominn tími á næsta skref hjá mér og skoðaði vel hvaða kostir voru í boði. Eftir vangaveltur ákvað ég gera samning við Blomberg-Lippe og er mjög spennt,“ segir landsliðskonan í handknattleik og leikmaður Íslandsmeistara Vals, Elín Rósa Magnúsdóttir, sem samið hefur við þýska 1. deildarliðið Blomberg-Lippe til tveggja ára frá og með næsta keppnsitímabili.
Leitaði til Andreu og Díönu
„Fljótlega eftir EM þá frétti ég af áhuga félagsins og síðan hafa hlutirnir gerst hratt,“ sagði Elín Rósa sem leitaði til landsliðskvennanna Andreu Jacobsen og Díönu Daggar Magnúsdóttur sem leika þegar með liðinu.
„Báðar voru þær afar hjálplegar að svara spurningum mínum og veita mér upplýsingar auk þess sem ég fékk mjög góða kynningu frá félaginu. Allt lítur mjög vel út,“ segir Elín Rósa sem fer út í sumar og verður atvinnukona í handknattleik í einni af betri deildum Evrópu.

Hefur á þetta stefnt
„Það er bara risastór draumur að rætast, nokkuð sem maður hefur stefnt á að láta rætast,“ segir Elín Rósa sem fann fyrir áhuga fleiri liða en ákvað að láta slag standa og fara til Þýskalands.
„Þegar ég var að láta mig dreyma um þetta leit ég frekar til Danmerkur eða Noregs en þegar Blomberg-Lippe kom inn í myndinni þá leist mér best á það sem félagið hefur upp á að bjóða.“
Elín Rósa hefur leikið 28 landsleiki og skorað í þeim 55 mörk. Hún var með landsliðinu á HM 2023 og EM 2024.
Blomberg-Lippe er í 4. sæti þýsku 1. deildarinnar um þessar mundir. Lið félagsins lék til úrslita í þýsku bikarkeppninni um síðustu helgi en beið lægri hlut fyrir Ludwigsburg. Einnig er Blomberg-Lippe komið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar og mætir spænska meistaraliðinu Super Amara Bera Bera 23. og 30. mars.
Byrjaði með ÍR en fór í Fylki
Elín Rósa er 22 ára gömul og hefur leikið með Val frá 2019. Áður hafði hún leikið með Fylki frá því í fjórða flokki. Fyrstu skrefin á handboltavellinum tók Elín Rósa með ÍR.
Þakklát fyrir tímann hjá Val
„Ég hef átt mjög góðan tíma með Val. Hjá félaginu hef ég vaxið og þroskast sem leikmaður og fengið öll tækifæri sem hægt var að fá. Ég er ótrúlega þakklát fyrir tímann í Val. Þangað til ég fer út verður nóg að gera við að ljúka keppnistímabilinu á sem besta hátt,“ segir Elín Rósa Magnúsdóttir sem á að mæta á sína fyrstu æfingu hjá Blomberg-Lippe í júlí.
Elín Rósa verður fimmta íslenska handknattleikskonan til þess að leika með Blomberg Lippe. Auk Andreu og Díönu Daggar sem þegar eru hjá félaginu voru Hildur Þorgeirsdóttir og Karen Knútsdóttir með Blomberg-Lippe frá 2011 til 2013.
Blomberg er í Norðurrín-Vestfalíu (þýska: Nordrhein-Westfalen) sem er fjórða stærsta sambandsland Þýskalands en það fjölmennasta.