- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Bara smá skurður og nokkrir saumar“

Kristófer Máni Jónasson sækir að vörn Marokkó í fyrsta leik Íslands á HM. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

„Þetta var bara smá skurður og nokkrir saumar. Ég er í toppmálum,“ sagði hornamaðurinn eldfljóti í U21 árs landsliðinu, Haukamaðurinn Kristófer Máni Jónasson, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans til Aþenu og forvitnaðist um ástandið á honum eftir óhapp sem hann varð fyrir í sigurleik gegn Serbum í gær.

Sárið á hökunni áður en því var lokað. Mynd/aðsend

Mildi að ekki fór verr

Kristófer Máni varð að fara af leikvelli síðla í fyrri hálfleik eftir að hafa orðið fyrir slæmri byltu. Ýtt var á bakið á honum í hraðaupphlaupi sem varð þess valdandi að Kristófer kastaðist af nokkur afli á varnarmann serbneska liðsins sem í veginum var.
Alls þurfti að sauma sjö spor til þess að loka sárinu. Mildi má telja að ekki hafi farið verr.

Skall með hökuna á Serba

„Ég skall með hökuna á einn Serbann og sárið opnast. Það er það eina sem gerðist,“ sagði Kristófer Máni sem lék hluta af síðari hálfleik eftir óhappið.

„Sárinu var bara lokað og síðan snúið sér að því sem næst var á dagskrá,“ sagði Hafnfirðingurinn sem var hinn afslappaðasti enda í slökun þegar símtal frá handbolta.is rauf kyrrðina.

Íslenska landsliðið er komið í 16-liða milliriðlakeppni heimsmeistaramóts 21 árs landsliðanna og mætir gríska landsliðinu á morgun, sunnudag, klukkan 14.30 í Melina Merkouri-íþróttahöll Olympiacos í Aþenu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -