- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bara tölur á blaði – markakóngurinn framlengir til 2026

Ómar Ingi Magnússon varð markakóngur og besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar 2021. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

„Það er góður áfangi að ná þessu þótt það hafi ekki verið markmiðið þegar keppnistímabilið hófst. Það er bara gaman,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Magdeburg, sem í gær varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með 274 mörk í 38 leikjum, 7,2 mörk af að jafnaði í leik. Hann hélt upp á áfangann með því að framlengja samning sinn við Magdeburg til loka júní 2026 en félagið greindi frá þessum tíðindum fyrir nokkrum mínútum, eftir að handbolti.is slóð á þráðinn til Ómars Inga.

Ómar Ingi er fjórði Íslendingurinn sem verður markakóngur deildarinnar. Íslendingar voru aðsópsmiklir að vanda í þýsku 1. deildinni á leiktíðinni en þrír eru á meðal sex þeirra markahæstu eins og sjá má hér.


Ómar Ingi er um leið fyrsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til þess að verða markakóngur á fyrsta keppnistímabili sínu en hann kom til Magdeburg fyrir ári frá Aalborg Håndbold í Danmörku.

Liðsfélagarnir hjálpuðu til

„Ég viðurkenni það að þegar komið var inn í síðasta leikinn þá hafði maður í huga að þessi áfangi væri innan seilingar og því var lagt aðeins meira undir til þess að ná honum. Liðsfélagarnir vildu líka að ég næði þessu. Þeir hjálpuðu mér við það,“ sagði Ómar Ingi sem skoraði 12 mörk í 19 skotum í leiknum við Lemgo í lokaumferðinni í gær.

Ekki markmiðið

„Annars er þetta bara tölur á blaði, niðurstaða tímabilsins. Markmið mitt í leikjum er ekki að skora einhvern tiltekinn fjölda marka eða vera með einhvern fjölda stoðsendinga. Fyrst og fremst reyndi ég að spila góðan leik í hvert sinn sem ég fór inn á leikvöllinn, skila eins góðum leik til liðsins og mér væri unnt. Þegar dæmið er gert upp þá er þetta ein niðurstaðan,“ sagði Ómar Ingi ennfremur en auk markanna 274 þá átti hann 91 stoðsendingu. Til viðbótar var Ómar Ingi næst markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar, Evrópukeppni félagsliða, sem Magdeburg vann á vordögum með glæsibrag.

Vildi vera í titilbaráttu

„Það var eitt af markmiðunum fyrir tímabilið að vinna Evrópukeppnina en hinsvegar hefði ég og við í liðinu viljað gera betur í deildinni. Við höfnuðum í þriðja sæti en við hefðum getað veitt Kiel og Flensburg meiri keppni en raun varð á. Við vorum klaufar í nokkrum leikjum og vorum þar af leiðandi aldrei í baráttu um meistaratitilinn. Ég hefði vilja vera nær Kiel og Flensburg. Það er skref sem við þurfum að taka sem lið. Kiel og Flensburg hafa það umfram okkur að þau tapa helst ekki leikjum gegn liðum sem eru skráð lakari en þau. Í þessu verðum við að vinna áfram.

Mynd/Magdeburg


Deildin er maraþonhlaup þar sem öll liðin geta tapað hvert fyrir öðru ef hugur fylgir ekki máli. Maður verður að mæta klár í næsta leik,“ sagði Ómar Ingi sem var staddur á flugvellinum í Frankfurt og beið eftir flugi heim til Íslands í kærkomið frí. Kona hans og tvíburar þeirra, sem fæddust í vetur, eru þegar komin heim til Íslands. Ómar Ingi var fyrir nokkru bólusettur við covid19 og er þar af leiðandi allir vegir færir utan vallar sem innan.

Eins árs tímabil

„Tímabilið er orðið afar langt. Ég byrjaði að æfa 1. júlí fyrir ári með Magdeburg og nú loksins er maður kominn í kærkomið frí sem ég ætla að njóta sem best áður en undirbúningur fyrir næsta tímabil hefst,“ sagði Ómar Ingi Magnússon markakóngur þýsku 1. deildarinnar af yfirvegun þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -