Deildarmeistarar FH fengu svo sannarlega að vinna fyrir sigrinum á KA í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Forskotið var tvö mörk þegar upp var staðið, 30:28, en í óhætt er að segja að KA-menn hafi andað ofan í hálsmálið á leikmönnum FH allt til leiksloka. Aðeins var eins marks munur þegar fyrri hálfleikur var að baki, 15:14.
Næsti leikur liðanna verður í KA-heimilinu á sunnudaginn klukkan 14.
Ljóst var að KA-liðið ætlaði að leggja allt í sölurnar í fyrsta leik og láta deildarmeistarana a.m.k. hafa fyrir sigrinum.
Fyrri hálfleikur var hnífjafn fyrstu 20 mínúturnar áður en FH tókst að skora þrjú mörk í röð og ná um leið þriggja marka forskoti, 13:10. KA-menn gáfu lítið eftir og voru aðeins marki undir hálfleik, 15:14.
Svo virtist á fyrstu mínútum síðari hálfleiks að FH ætlaði að stinga af. KA-liðinu gekk margt í mót. FH skoraði þrjú fyrstu mörkin, 18:14, og voru leikmenn hreinlega klaufar að bæta ekki við tveimur til viðbótar og ná sex marka forskoti. Af því varð ekki og KA-menn létu ekki hug falla þrátt fyrir mótlæti og tvo brottrekstra á fyrstu sex mínútunum.
Þegar 20 mínútur voru til leiksloka var forskot FH eitt mark, 19:18. Þegar Sigursteinn Arndal þjálfari FH sá þann kost vænstan að taka leikhlé eftir 15 mínútur og 15 sekúndur í síðari hálfleik var staðan jöfn, 22:22. Daði Jónsson hafði þá rétt áður jafnað metin fyrir KA-menn.
Upp úr því náðu FH-ingar frumkvæðinu á ný þótt KA-menn hafi andað ofan í hálsmálið á þeim allt fram á síðustu sekúndur.
Ekki síst var það Aron Pálmarsson sem tók af skarið í sóknarleik FH á lokakaflanum. Reið frammistaða hans vafalítið baggamuninn fyrir deildarmeistarana.
Mörk FH: Aron Pálmarsson 9/2, Jóhannes Berg Andrason 6, Einar Bragi Aðalsteinsson 6, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Símon Michael Guðjónsson 1, Ásbjörn Friðriksson 1, Birgir Már Birgisson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1, Einar Örn Sindrason 1, Daníel Matthíasson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12, 30%.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 8/3, Ólafur Gústafsson 6, Einar Birgir Stefánsson 4, Ott Varik 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Daði Jónsson 2, Dagur Árni Heimisson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 9, 34,6% – Bruno Bernat 3, 20%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Sjá einnig:
Umspil Olís kvenna: leikjadagskrá og úrslit
Umspil Olís karla: leikjadagskrá og úrslit
Olís kvenna: Úrslitakeppni, leikjadagskrá
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni