Elvar Örn Jónsson og liðsfélagar í MT Melsungen unnu baráttusigur á Bidasoa Irún, 28:27, í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildar karla í handknattleik í Kassel í Þýskalandi í kvöld. Elvar Örn skoraði fimm mörk og var næst markahæstur. Síðari leikurinn fer fram á Spáni eftir viku.
Áttu lengi undir högg að sækja
Um sannkallaðan baráttusigur var að ræða hjá MT Melsungen því auk þess sem margir leikmenn liðsins er frá vegna meiðsla, þar á meðal aðalmarkvörðurinn, þá var liðið lengi vel undir. M.a. voru leikmenn Bidasoa fjórum mörkum yfir þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 20:16. Melsungen-liðum tókst að snúa við taflinu og komast yfir, 27:26, þegar þrjár mínútur voru eftir.
Lichtlein hljóp í skarðið
Arnar Freyr Arnarsson er þá úr leik vegna meiðsla auk annarri leikmanna Melsungen. Nebojsa Simic markvörður sleit krossband um síðustu helgi og varð Carsten Lichtlein markvarðaþjálfari og fyrrverandi landsliðsmarkvörður Þýskalands að standa í markinu lengst af í leiknum. Lichtlein, sem er 44 ára gamall, lagði skóna á hilluna fyrir nokkrum árum og sneri sér að þjálfun.
Ian Barrufet var markahæstur hjá Melsungen með sex mörk.
Elvar Örn var næstur á eftir með fimm mörk. Asier Nieto Marcos var markahæstur hjá Bidasoa með sex mörk.
Flensburg vann á Fjóni
Í hinni viðureign átta liða úrslita, sem fram fór fyrri hluta kvöldsins, vann Flensburg danska liðið GOG, 29:26, í Svendborg.
Danirnir Lukas Jørgensen og Emil Jakobsen skoruðu sjö mörk hvor fyrir Flensburg. Jakobsen er fyrrverandi leikmaður GOG.
Tobias Grøndahl var atkvæðamestur hjá GOG með sjö mörk.
Síðar í kvöld mætast Limoges og THW Kiel annarsvegar og Porot og Montpellier hinsvegar.