Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk þegar lið hans, Lemgo, vann sannkallaðan baráttusigur á heimavelli í kvöld þegar Erlangen kom í heimsókn, 24:23, en leikurinn var liður í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Lemgo stökk upp í sjötta sæti deildarinnar með þessum sigri. Liðið hefur 11 stig þegar 10 leikir eru að baki.
Staðan var jöfn, 9:9, að loknum fyrri hálfleik. Lemgo náði um skeið fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik en leikmenn Erlangen gáfu lítt eftir og jöfnuðu metin. Segja má að síðasta stundarfjórðunginn hafi verið stál í stál á leikvellinum. Tim Suton tryggði Lemgo sigurinn með 24. markinu tæplega hálfri mínútu fyrir leikslok. Erlangen-liðið náði reyndar að minnka muninn í eitt mark eftir að Suton skoraði en nær komst það ekki.
Fyrrgreindur Suton og Lukas Zerbe, sonur Volker Zerbe fyrrverandi landsliðsmanns Þýskalands, voru markahæstir hjá Lemgo með sex mörk hvor. Svíinn Simon Jeppsson var markahæstur hjá Erlangen með sex mörk og Sebastian Firnhaber skoraði fjórum sinnum.
Leikmenn GWD Minden hafa ekki jafnað sig eftir hálfs mánaðar sóttkví ef marka má frammistöðu þeirra í kvöld í heimsókn til Ludwigshafen þar sem heimamenn unnu með sex marka mun, 30:24.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Rhein-Neckar Löwen 16(9), Kiel 14(8), Stuttgart 13(10), Flensburg 12(7), Göppingen 12(8), Lemgo 11(10), Wetzlar 10(10), Melsungen 9(6), F.Berlin 9(7), Leipzig 9(8), Erlangen 9(10), Magdeburg 8(7), Bergischer 7(8), Hannover-Burgdorf 6(7), Nordhorn 6(10), Balingen-Weilstetten 5(9), Luwdigshafen 5(10), GWD Minden 3(7), Essen 2(7), Coburg 0(8).