- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Baráttusigur FH í Minsk

Ásbjörn Friðriksson sækir að vörn SKA Minsk í fyrri viðureign liðanna. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH tókst að kreista fram eins marks baráttusigur, 26-25, gegn SKA Minsk í dag er liðin mættust öðru sinni í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði sigurmark Hafnfirðinga þegar innan við mínúta var til leiksloka.

Ærið verkefni stóð frammi fyrir liði FH eftir átta mark tap, 37-29, í Kaplakrika í fyrri leik liðanna fyrir viku síðan. FH er því úr leik þrátt fyrir fína frammistöðu í Minsk þar sem SKA Minsk sigrar í einvíginu samanlagt, 62-55.

Fyrri hálfleikur var jafn og hraður og skiptust liðin á því að hafa forystuna. Að loknum fyrri hálfleik var SKA Minsk einu marki yfir, 15-14. Egill Magnússon fór mikinn í sóknarleik FH-inga í fyrri hálfleik og skoraði 6 mörk. Áfram var jafnt á milli liðanna í upphafi seinni hálfleiks. Helst ber að nefna að Uladzislau Kryvenka, leikmaður SKA Minsk, fékk að líta rauða spjaldið á 32. mínútu en hann var þá næstmarkahæstur í sínu liði með fimm mörk.

Þegar 20 mínútur voru til leiksloka var staðan 19-19. Heimamenn virtust vera að ná undirtökunum á leiknum þegar þeir komust tveimur mörkum yfir 21-19 en FH lagði ekki árar í bát og tókst að minnka muninn í eitt mark. SKA Minsk hélt eins marks forystu allt þar til tvær mínútur voru til leiksloka þegar Ásbjörn Friðriksson jafnaði leikinn í 25-25. Leonharð Þorgeir Harðarson kom FH í 26-25 þegar innan við mínúta var eftir af leiknum. Hafnfirðingum tókst í kjölfarið að verjast lokasókn SKA Minsk og knýja fram eins marks sigur í Hvíta-Rússlandi.

Markahæstur hjá FH í dag var Ásbjörn Friðriksson með 8 mörk úr 12 skotum. Á eftir honum kom Egill Magnússon með 6 mörk. Þeir Ágúst Birgisson og Jakob Martin Ásgeirsson skoruðu hvor um sig 3 mörk. Birgir Már Birgisson og Einar Örn Sindrason voru með 2 mörk hver og Jón Bjarni Ólafsson og Leonharð Þorgeir Harðarson skoruðu eitt mark hver.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -