Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar í Barcelona fóru á kostum í fyrri hálfleik gegn franska meistaraliðinu PSG í 10. umferð af 14 í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Gríðarlegur hraði var í leiknum og lítið um varnarleik, ekki síst í fyrri hálfleik. Barcelona var 10 mörkum yfir í hálfleik, 26:16. Liðið hægði aðeins ferðina í síðari 30 mínúturnar og vann með fimm marka mun, 38:33.
Viktor Gísli var í marki Barcelona í rúmlega 20 mínútur og varði 2 skot, 15,4%. Emil Nielsen varði 7 skot, 24%.
Aleix Gómez skoraði 10 mörk í 12 skotum fyrir Barcelona og var markahæstur. Elohim Prandi var með 14 mörk skoruðu fyrir PSG sem er með sex stig í 5. sæti B-riðils og sex stig. Liðið getur misst GOG upp fyrir sig í kvöld lánist danska liðinu að vinna a.m.k. eitt stig gegn Wisla Plock.
Barcelona er jafnt Magdeburg með 18 stig í efsta sæti B-riðils. Magdeburg á leik til góða gegn Pick Szeged í kvöld.
Loksins sigur í Zagreb
Gamli refurinn Nenad Šoštarić sem tók við þjálfun RK Zagreb fyrir tveimur vikum stýrði liðinu til fyrsta sigursins í Meistaradeild Evrópu síðan í febrúar þegar liðið lagði Eurofram Pelister í gærkvöld, 27:23. Leikið var í Zagreb. Liðin eru í tveimur neðstu sætum B-riðils.
Þjálfarafarsinn heldur áfram hjá RK Zagreb
Filip Glavaš skoraði 10 mörk í 11 skotum fyrir RK Zagreb en Filip Kuzmanovski skoraði sjö mörk fyrir Pelister.
Danskur sigur í Búkarest
Áfram gengur hvorki né rekur hjá rúmenska meistaraliðinu Dinamo Búkarest. Liðið tapaði fyrir Aalborg Håndbold á heimavelli í gærkvöld, 30:27. Aalborg var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13. Dinamo-liðið átti nokkur tækifæri til þess að jafna metin í síðari hálfleik en allt gekk það liðinu úr greipum.
Branko Vujovic skoraði fimm mörk og var markahæstur hjá Dinamo. Danski landsliðsmaðurinn Simon Hald skoraði sex mörk fyrir Aalborg Håndbold.
Staðan:



